Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags, segir að launahækkanir núgildandi kjarasamnings verði aldrei snertar.
„Gaspur leiðarahöfunda og leiðtoga ativnnurekenda um annað er ólíkindalæti,“ segir hún í aðsendri grein í Morgunblaðinu.
Hún segir íslenska atvinnurekendur hafa lagt áherslu á langan kjarasamning í samningalotunni vorið 2019 og hafnað alfarið tillögu um styttri vinnutíma.
„Þeim varð að ósk sinni. Langur samningstími kemur til góða í núverandi ástandi. Samningurinn veitir heimilum verka- og láglaunafólks von í erfiðum aðstæðum og hagkerfinu öllu dýrmæta örvun.“
Í greininni bendir Sólveig Anna jafnframt á nýjar tölur Hagstofunnar um að 10% ríkustu Íslendinganna eigi 56% af hreinum eignum landsmanna og segir það blauta tusku í andlit verkafólks en staðfesta um leið augljóst vandamál.
Verkalýðshreyfingin eigi að vera í fararbroddi í baráttunni gegn misskiptingu og nota kjarsamningagerð til þess.