Um 60 aðgerðum frestað vegna smita á LSH

Þorri smitanna greindist á meðal starfsfólks á Landspítala í Fossvogi, …
Þorri smitanna greindist á meðal starfsfólks á Landspítala í Fossvogi, bæði á meðal heilbrigðisstarfsfólks og iðnaðarmanna. mbl.is/Sigurður Bogi

30 starfsmenn Landspítalans eru smitaðir af kórónuveirunni og ríflega 170 í sóttkví. Smit hafa greinst hjá starfsmönnum sem starfa í húsnæði Landspítalans í Fossvogi, við Hringbraut og í skrifstofuhúsnæði í Skaftahlíð. 50 aðgerðum var frestað í vikunni vegna stöðunnar og var rétt í þessu tekin ákvörðun um að fresta átta aðgerðum sem áttu að fara fram um helgina. 

Þetta segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans í samtali við mbl.is. Meginþorri smitanna er í Fossvogi.

„Við erum að fresta talsvert mikið af aðgerðum vegna þessa. Það eru að sjálfsögðu svona minni aðgerðir, ekki stórar krabbameinsaðgerðir eða tímasensitívar aðgerðir. Við erum að forgangsraða svolítið stíft inn á skurðstofurnar vegna þess að staðan er dálítið óljós akkúrat núna,“ segir Anna Sigrún. 

Liðskiptaaðgerðum helgarinnar frestað

Um helgina var fyrirhugað átak í liðskiptaaðgerðum og átti tæpur tugur slíkra aðgerða að verða framkvæmdur. Þeim aðgerðum var frestað vegna smita og sóttkví starfsfólks. 

Anna Sigrún segir erfitt að spá fyrir um það hversu mörgum aðgerðum verði frestað í framhaldinu. 

„Við höfum áhyggjur af því að við getum ekki haldið uppi fullri þjónustu á öllum sviðum hjá okkur. Við höfum þurft að fresta talsvert af aðgerðum í vikunni. Síðan er það þannig að þegar við setjum upp aðgerðaplan þá gerum við það ekki með mjög löngum fyrirvara en núna erum við til dæmis ekki að setja upp fullt aðgerðaplan þannig að ég get ekki sagt til um hvað við frestum mörgum aðgerðum vegna þess að við skipuleggjum þær ekki.“

Starfsmenn á skrifstofu í aðra sýnatöku í dag

Um 100 aðgerðir eru framkvæmdar daglega á Landspítala. Bráðaaðgerðum verður ekki slegið á frest. 

Þeir starfsmenn Landspítala sem starfa á skrifstofu spítalans fóru í seinni sýnatöku í dag enda voru þeir útsettir fyrir smiti fyrir um viku síðan. Fá þeir sem reynast neikvæðir að snúa aftur til vinnu í sóttkví C. Í henni þurfa þeir að vara sig sérstaklega vel inni á vinnustað en eru ekki í sóttkví fyrir utan vinnustaðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert