Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að Samtök atvinnulífsins verði að svara því hvernig þau hafi komist að þeirri niðurstöðu að forsendur lífskjarasamningsins hafi brostið. Út frá þeim ástæðum sem gefnar eru í tilkynningu samtakanna segir Drífa að það „veki upp spurningar hvort þeir séu að brjóta samninga á röngum forsendum.“
SA hefur boðað til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna um uppsögn samningsins og segir Drífa að næsta skref hjá ASÍ sé að bíða eftir niðurstöðum þess. „Ég á enn eftir að sjá að þeir ákveði að segja upp samningunum,“ segir hún við mbl.is og virðist efins að það muni gerast. Segir hún ljóst að atvinnugreinarnar séu í mjög mismunandi stöðu í dag, en að uppsögn samningsins myndi binda endi á frið á vinnumarkaði.
Fram að niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar segir Drífa að boðað hafi verið til samráðsfundar með formönnum aðildarfélaga ASÍ á mánudaginn. Þá verði líklegast einhver samtöl á milli aðila vinnumarkaðarins og þá hafi komið fram að forsætisráðherra vilji ræða við forsvarsmenn ASÍ og SA. „En okkar lína er mjög skýr,“ segir hún og ítrekar að halda eigi sig við samkomulagið.
„Að því sögðu eru fjölmörg verkefni sem þarf að fara í vegna ástandsins. Við munum ræða það við stjórnvöld og eftir atvikum atvinnurekendur,“ segir Drífa. Vísar hún þar til vinnumarkaðsaðgerða og nefnir í því samhengi möguleika á að tengja atvinnuleysisbætur við að fólk vinni samt áfram, t.d. hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sem hafi kallað eftir að geta haldið 1-2 starfsmönnum í starfi í gegnum Covid-19 tímabilið þrátt fyrir að vera á atvinnuleysisbótum. „Við erum tilbúin að ræða allskonar þannig hugmyndir," segir Drífa og bætir við að þetta sé meðal hugmynda sem sé í gangi hjá Vinnumálastofnun og hópi sem er að skoða vinnumarkaðsúrræði.
Spurð hvort það kæmi til greina að koma að hluta til móts við kröfur SA með að frysta t.d. hækkanir launa í þeim greinum sem verst hafa orðið fyrir áhrifum faraldursins vísar Drífa aftur til fyrra svars og segir að ASÍ sé til í að skoða ákveðnar vinnumarkaðsaðgerðir en hafi ekki horft til að breyta forsendum lífskjarasamningsins.