Ekki náttúrulögmál að dýrt sé að búa á Íslandi

Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, segir ekki náttúrulögmál að dýrt sé …
Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, segir ekki náttúrulögmál að dýrt sé að búa á Íslandi. Það sé pólitísk ákvörðun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar kjósendur ganga að kjörborðinu að ári verða nöfn nokkurra flokka kjörseðlinum. Kjósendur geta hins vegar aðeins veitt Alþingi umboð til að mynda tvenns konar ríkisstjórn: Annars vegar að gefa þeim flokkum umboð sem vilja framlengja ríkisstjórn kyrrstöðu og sérhagsmuna, og hins vegar að gefa þeim flokkum umboð sem þora að taka stór skref til að brjóta núverandi stjórnarmynstur upp og mynda ríkisstjórn fyrir fjöldann, þar sem miðja stjórnmálanna verður kjölfestan og frjálslyndið þráðurinn.

Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í setningarræðu sinni á landsþingi flokksins.

Ekki náttúrulögmál að dýrt sé að búa á Íslandi

Þorgerður sagði sýn Viðreisnar skýra: Það eigi ekki að vera svona dýrt að vera Íslendingur. „Er það óhjákvæmilegt að íslenskar fjölskyldur þurfi að greiða mun meira fyrir mat en fjölskyldur í öðrum löndum? Nei, þetta er afleiðing pólitískrar hugmyndafræði gömlu flokkanna – vegna krónunnar og samkeppnishindrana. Þessu getum við breytt. Þessu munu íhaldsflokkar ekki breyta. Lækkum matvælaverð, tökum upp evru og rífum niður tollamúrana.“

„Og hvers vegna er það langtum dýrara að eignast húsnæði á Íslandi en í nágrannalöndunum? Þarf það að vera þannig? Svarið við því er einfaldlega nei. Hættum að láta íslenskar fjölskyldur einar um það að margborga húsnæði sitt, verjum þær gegn sveiflum og leggjum krónunni. Það er ekki náttúrulögmál að það sé dýrt að búa á Íslandi. Það er pólitísk ákvörðun. Og um þessa sýn og þessi gildi snúast næstu kosningar.“

Þá sagði Þorgerður að við gætum ekki beðið lengur með að setja fullan kraft í að bregðast við loftslagsbreytingum og að á Íslandi væru öll tækifæri til að verða framúrskarandi í orkuskipum. „Verða grænasta land í heimi. Því loftslagsmálin/umhverfismálin eru efnahagsmál, velferðarmál, atvinnumál, fjölskyldumál, framtíðarmál. Í raun lífsins spursmál. Í mínum huga eru þau ekki einn málaflokkur heldur sýn sem þarf að flétta inn í alla okkar stefnu og aðgerðir.“

Sinni kröfum neytenda áttunda áratugar síðustu aldar

„Og talandi um umhverfismál. Neysluhættir hafa gerbreyst á undanförnum árum en íslenska landbúnaðarkerfið er enn að sinna kröfum neytenda áttunda áratugar síðustu aldar. Það er eitthvað bogið við það þegar kerfið býður upp á hæsta verðið til neytenda en á sama tíma ein slökustu kjörin til bænda í alþjóðlegum samanburði. Ég á mér þann draum eins og margir fleiri að sjá íslenska landbúnaðarframleiðslu dafna. En það eru hindranir í veginum. Til þess þarf stærri markað. Til þess þarf samkeppnishæfa mynt. Til þess þarf grænar áherslur. Og til þess þarf meiri markaðslausnir og minni forsjárhyggju. Þessu getum við breytt.“

Úrslitabarátta um sameign þjóðarinnar

Hvað sjávarútveginn varðar sagði Þorgerður þjóðina standa frammi fyrir einu stærsta hugmyndafræðilega deilumáli fortíðar og nútíðar: hvernig auðlindaákvæði í stjórnarskrá eigi að líta út.

„Ágreiningurinn er fólginn í því hvort hugmyndin um sameign þjóðarinnar verður virk eða óvirk, hvort hún verði orðin tóm eða veruleiki. Og hér er línan á milli okkar og ríkisstjórnarflokkanna skörp. Afar skörp. Við stöndum frammi fyrir úrslitabaráttu í þessu gríðarlega hagsmunamáli. Það eru tuttugu ár síðan allir flokkar á Alþingi tóku ákvörðun um að setja í stjórnarskrá ákvæði um gjald fyrir tímabundin afnot. Síðan þá hafa stjórnarflokkarnir þrír hlaupið eins og fætur toguðu frá þessari samstöðu, vegna sérhagsmunaþrýstings. Nú virðast flokkarnir hafa lofað útgerðinni að koma stjórnarskrárákvæði án tímabindingar veiðiréttar í gegn. Það er bara ein leið til að stöðva þessa sérhagsmunagæslu og tryggja hér almannahagsmunina. Hún felst í því að koma í veg fyrir að stjórnarflokkarnir ásamt Miðflokknum fái meirihluta eftir kosningar til að staðfesta þessar breytingar.“

Sagði Þorgerður að verði samstöðu þessara fjögurra flokka ekki sundrað í næstu kosningum sé hætta á að hugmyndin um auðlindir í almannaeigu verð afgreidd út af borðinu í eitt skipti fyror öll. „Úrslitaorrustan í þessu máli verður háð næsta árið.“

Ekki eitt orð um að gæta réttinda barna á flótta

 „Það er síðan auðvitað broslegt að fylgjast með því þegar ungt hugsjónaríkt fólk setur fram beitta gagnrýni á sjávarútvegskerfið. Þá ærast þingmenn og aðrir fótgönguliðar Sjálfstæðisflokksins og stíga fram af heilagri vandlætingu. Þá skal sko látið finna fyrir sér. Þá er steyttur hnefinn. En á sama tíma ekki eitt orð um að gæta réttinda barna á flótta. Ekki eitt orð. Ekki einu sinni frá ungliðahreyfingu flokksins. Enda voru skiptin þau að stefna Sjálfstæðis- Miðflokksins, umlykur flóttamanna og mannréttindamálin meðan að forsjárhyggja VG ræður heilbrigðismálunum.“

Þá spurði Þorgerður hversu oft við hefðum átt samtöl um þær umbætur sem við teljum að séu mikilvægar og fengið svör frá hagsmunahópum, pólitískum andstæðingum og lobbýistum að það séu ekki tímabærar breytingar. „Nú er sko ekki rétti tíminn.“

 „Það er þægilegra að segja seinna en að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að það standi aldrei til að hver maður eigi eitt atkvæði í kosningum. Það er þægilegra að segja seinna en nei við því að að þjóðin fái að njóta afraksturs sameiginlegrar auðlindar með sanngjörnum auðlindagjöldum. Það er heldur aldrei rétti tíminn til að ræða gjaldmiðilinn. Eða veita þjóðinni sjálfri val um stöðu Íslands meðal Evrópuþjóða.“

„Ekki núna, seinna” segja þau. En þá spyr ég – hvenær? Hvenær treysta þau sér til að tala um þessa hluti og taka þessi stóru skref? Og af hverju halda pólitískir andstæðingar okkar að þeir hafi dagskrárvald yfir okkur? Er ekki sönnunarbyrðin á þeim? Gleymum ekki að samfélag snýst um fólk - ekki kerfi eða hagsmuni fárra. Um það munu næstu kosningar snúast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert