Fundir forsætisráðherra í sitt hvoru lagi

mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki enn hafa tekið ákvörðun um hvenær fundir hennar við deiluaðila á vinnumarkaði fari fram. Hún hefur áður tilkynnt að hún ætlaði að boða forsvarsmenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins á sinn fund. Í samtali við mbl.is í dag segir Katrín að hún muni funda við deiluaðila í sitt hvoru lagi.

„Það er enn óákveðið en mun koma í ljós um helgina eða strax eftir helgi,“ segir Katrín aðspurð að því hvenær boðað yrði til fundar. „Það hafa farið fram samtöl á báða bóga í allan dag þar sem farið er yfir stöðu mála og næstu skref.“

Mikill órói hefur verið á vinnumarkaði eftir að í ljós kom í gær að ASÍ og SA væru á öndverðum meiði um það hvort forsendur lífskjarasamnings væru brostnar. SA telur að svo sé og við því þurfi að bregðast á meðan ASÍ segir að forsendur lífskjarasamningsins séu ekki brostnar.

Standa þurfi við samninginn til þess að halda friði á vinnumarkaði að sögn Drífu Snædal, forseta ASÍ. Hún sagði í samtali við mbl.is í gær að það myndi senda „mjög alvarleg skilaboð“ út í samfélagið ef til þess kæmi að launahækkanir, sem lífkjarasamningurinn kveður á um, verði frystar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert