Alþjóðleg samtök blaðaútgefenda, WAN-IFRA, hafa útnefnt Landsprent, prentsmiðju Morgunblaðsins, í svokallaðan Stjörnuklúbb bestu blaðaprentsmiðja heims.
Prentsmiðjan tók fyrr á árinu þátt í keppninni „International Color Quality Club“ og náði þar mjög góðum árangri. Keppnin byggist á því að prentunin er skoðuð og mæld yfir langt tímabil. Aftarlega í blaðinu var daglega prentaður lítill kubbur með mislitum punktum og eru gæði prentunarinnar m.a. mæld eftir þeim.
Guðbrandur Magnússon, framkvæmdastjóri Landsprents, segir árangur Landsprents byggjast á faglegum og vönduðum vinnubrögðum, góðum búnaði og metnaði allra starfsmanna prentsmiðjunnar. „Við þökkum þennan góða árangur frábæru og metnaðarfullu starfsfólki, sem leggur sig allt fram um að skila góðu verki alla daga. Prentvél Landsprents er afar vönduð og allur annar tækjakostur einnig mjög góður. Við vitum líka að auglýsendur alveg sérstaklega kunna að meta hvernig við stöndum að verki í gæðamálum,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.