Tilkynnt var um líkamsárás á veitingahúsi í hverfi 220 í Hafnarfirði um ellefuleytið í gærkvöldi. Maður var handtekinn grunaður um líkamsárás, eignaspjöll og ofbeldi gegn opinberum starfsmanni.
Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglunnar.
Umferðaróhapp varð á Vesturlandsvegi í kringum miðnætti. Sautján ára ökumaður missti stjórn á bifreið sinni þar sem hjólför voru full af vatni, ók á vegrið, síðan yfir tvær akreinar og endaði utan vegar í gróðri.
Tveir farþegar voru í bifreiðinni en ekki urðu slys á fólki, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynnt var um umferðarslys í Breiðholti um ellefuleytið í gærkvöldi. Fimmtán ára stúlka féll af vespu og hlaut einhver meiðsl, m.a. skurð fyrir ofan augabrún, auk þess sem hjálmur hennar losnaði. Sjúkrabifreið var send á vettvang.
Laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi var bifreið stöðvuð eftir hraðamælingu á 142 km hraða þar sem hámarkshraði er 60 km á klst. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Hann var handtekinn og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.
Þá var kona staðin að þjófnaði úr verslun í Mjódd um hálfsjöleytið í gærkvöldi.
Rúmlega 30 veitingahús voru heimsótt í gærkvöldi af lögreglunni. Allir þeir staðir sem áttu að vera lokaðir vegna sóttvarnalaga reyndust vera lokaðir. Þar sem opnun var heimil þá var eitt veitinghús áminnt um að hafa rekstarleyfi sýnilegt og annað kært þar sem rekstrarleyfið var útrunnið.