Vonar að bylgjunni sé að ljúka

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist vona að dagurinn í dag gefi fyrstu vísbendingu um að þriðju bylgju kórónuveirunnar hér á landi sé að slota. Þó sé of snemmt að spá fyrir um það þar sem áður hafa sést viðlíka sveiflur í fjölda tilfella milli daga. Í gær greindust 20 kórónuveirusmit, en í fyrradag greindust 38. Einn er nú í öndunarvél á gjörgæslu.

 „Við höfum séð svona sveiflur áður þar sem munur á milli daga er mikill. Vonandi þýðir þetta að faraldurinn sé í rénun,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is en bætir við að varasamt sé að oftúlka smitfjölda einstakra daga.

„Það voru tekin hér færri sýni í gær en í fyrradag og það getur kannski að einhverju leyti útskýrt þessa fækkun milli daga án þess að ég vilji fullyrða um það.“

Frá sýnatöku á Landspítala.
Frá sýnatöku á Landspítala. Ljósmynd/Landspítali

Þórólfur segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um breytingar á sóttvarnaaðgerðum.

„Það hefur ekkert verið ákveðið hvort eigi að herða aðgerðir eða neitt slíkt. Við erum að meta þetta dag frá degi og í dag þykir ekki tilefni til þess að tilkynna um nokkuð,“ segir Þórólfur, en enginn upplýsingafundur almannavarna verður haldinn í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert