Ákærður fyrir tilraun til manndráps

Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákæru í málinu.
Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákæru í málinu. mbl.is/Hjörtur

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa veist að konu á heimili hennar með hníf og ítrekað gert tilraun til að stinga hana í höfuð og efri hluta líkamans.

Náði konan, sem jafnframt var leigusali mannsins, að verjast árásinni með því að bera fyrir sig hendur og fótlegg, en fékk þess í stað djúpa skurði víðs vegar um líkamann.

Maðurinn var handtekinn á vettvangi og hefur setið í fangelsi síðan. Konan var flutt til aðhlynningar, en var ekki talin í lífshættu vegna áverkanna.

Í ákæru málsins kemur fram að hún hafi hlotið djúpa skurði viðkjálkabein, við viðbein, yfir bringubein, á upphandlegg, á þumal, á læri, við hné og á hægri hendi.

Er maðurinn dæmdur fyrir tilraun til manndráps, en miðað er við 211. grein almennra hegningarlaga um manndráp og 20. grein sömu laga sem tekur fyrir tilraun til brota. Í fyrri greininni kemur fram að hver sem svipti annan mann lífi skuli sæta fangelsi ekki skemur en 5 ár. Í síðari greininni kemur fram að hver sem hafi tekið ákvörðun um að vinna verk og ótvírætt hafi sýnt þann ásetning í verki að fullfremja brotið, þó það sé ekki fullframið, hafi gerst sekur um tilraun til þess. Dæma má lægri refsingu í slíkum tilfellum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert