Erfitt er að sjá möguleika á 2.650 fermetra atvinnueignum á jarðhæð Grensásvegar 1 en skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur nú heimilað lóðarhafa að breyta fyrirhuguðu atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðir með inngarði.
Ekki var einu sinni gert ráð fyrir vörumóttöku frá götum, enda aðkoma þröng og hættulegar fráreinar til hinna miklu umferðaræða Grensásvegar og Suðurlandsbrautar, að því er fram kemur í ósk lóðarhafa, fasteignafélagsins G1 ehf., um breytinguna.
„Minni einingar, 80-160-240 fm max, gætu lifað,“ segir þar.
Lóðarhafi myndi leggja í mikla áhættu með slíkri framkvæmd, nú þegar eru mörg auð atvinnurými við Grensásveg, sem þó hafa bílastæði beint fyrir utan. Fyrir íbúa efri hæðar sé þetta mjög jákvæð breyting. Garðurinn muni nú tilheyra íbúunum en ekki eiga á hættu á hávaða frá t.d. veitingastarfsemi á jarðhæð. Íbúðirnar yrðu í suðurhluta hússins en atvinnuhúsnæði yrði áfram í norðurhlutanum, að því er fram kemur í umfjöllun um framkvæmdir þesar í Morgunblaðinu í dag.