Forsvarsfólk ASÍ hefur átt í samtölum í gegnum síma við stjórnvöld í dag, en enginn fundur hefur verið boðaður. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, við mbl.is.
Fyrr í dag fór forysta Samtaka atvinnulífsins á fund með stjórnvöldum í ráðherrabústaðnum. Fundurinn var nokkuð stuttur, en í kjölfarið frestaði SA upphafi atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna um hvort segja eigi upp lífskjarasamningnum.
Spurð hvort þessi aðgerð sé ákveðin viðleitni hjá SA á viðkvæmum tímum í þessum viðræðum segir Drífa að SA verði að svara fyrir það. Hún segir ASÍ ekki hafa rætt beint við SA í dag.
Spurð nánar út í samtöl hennar við stjórnvöld segist Drífa ekki tjá sig um þau að öðru leyti en að ASÍ hafi sagt að um sértæka kreppu sé að ræða sem kalli á sértækar aðgerðir og þeim hugnist ekki almennar aðgerðir í þessu sambandi.