Fulltrúar Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar munu á næstu misserum skoða mögulega stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Þetta verður gert í samstarfi við forsætis-, umhverfis og menntamálaneyti, Umhverfisstofnun og landgræðslusjóð.
Ef þjóðgarðurinn yrði að veruleika myndi hann ná yfir Dynjandisheiði og nærliggjandi svæði. Dynjandi, sá fagri og friðlýsti foss, yrði ásamt hinum skógi vaxna Vatnsfirði, sem sömuleiðis er friðlýstur, innan mögulegs þjóðgarðs. Samstarfshópurinn mun safna ýmsum gögnum þessu máli viðvíkjandi sem verndaráætlun fyrir svæðið myndi byggjast á og kynna þarf áður en ákvörðun er tekin.
Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu, sem stýrir verkefninu, býður svæðið upp á mikla möguleika til útivistar og náttúruverndar. Samkvæmt viðmiðum náttúruverndarlaga eru þjóðgarðar svæði þar sem finna má sérstakt landslag, heildstæð vistkerfi, söguslóðir, fornar minjar, dýralíf og sögustaði, svo sem Hrafnseyri, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Á síðasta ári færði RARIK ríkinu jörðina Dynjanda í Arnarfirði til eignar og varðveislu án endurgjalds. Um leið var undirritað samkomulag sem miðar að því að tryggja útivistar- og náttúruverndargildi staðarins og fossins Dynjanda sem er innan marka jarðarinnar.