„Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland leggur sérstaka barnaskýrslu fram við Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri Unicef á Íslandi.
Um sérstaka barnaskýrslu er að ræða, en hún verður kynnt fyrir Barnaréttarnefnd SÞ í dag. Þrjú ungmenni hafa unnið að skýrslunni undanfarin misseri. „Það helsta í þessu er að börn eru í fyrsta skipti að fara að kynna eigin skýrslu. Börn eiga rétt á því að tjá sig um mál sem að þeim koma og þetta er alveg ótrúlegt tækifæri til þess,“ segir Steinunn.
Skýrslan verður kynnt samhliða skýrslu níu frjálsra félagasamtaka um stöðu mannréttinda barna á Íslandi. Um viðbótarskýrslu við fimmtu og sjöttu skýrslu Íslands til barnaréttarnefndarinnar er að ræða. Ritstjórn skýrslunnar tók til starfa árið 2018 og kallaði eftir fulltrúum frá ungmennaráðum um allt land. Í verkefnahópinn bættust við sex ungmenni yngri en 18 ára sem unnu skýrsluna, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.