Hillir undir dóm í Mehamn-máli

Kåre Skognes héraðsdómari stimplaði sig inn hjá að minnsta kosti …
Kåre Skognes héraðsdómari stimplaði sig inn hjá að minnsta kosti hluta viðstaddra sem ákaflega huggulegur gestgjafi dómstólsins. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Í dag er runninn upp lokadagur aðalmeðferðar í Mehamn-málinu fyrir Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø í Noregi. Munu sækjandi og verjandi málsins, þeir Torstein Lindquister og Bjørn Andre Gulstad, þá flytja lokaræður sínar í málinu frammi fyrir Kåre Skognes héraðsdómara, meðdómendum hans og öðrum sem fylgjast með málinu og Skognes ljúka aðalmeðferðinni með því að tilkynna dagsetningu dómsuppkvaðningar í málinu.

Réttarhlé var haldið í gær og því enginn málflutningur þann daginn, en þá fimm daga sem aðalmeðferðin stóð í síðustu viku var dagskráin þéttskipuð. Fyrsta daginn flutti Elena Undeland, kærasta Gísla Þórs Þórarinssonar heitins, vitnisburð sinn og svaraði þar fjölda spurninga héraðsdómara, sækjanda, verjanda og síns réttargæslulögmanns, Mette Yvonne Larsen.

Fengu viðstaddir þar með að heyra frásögn hennar af atburðum síðustu dagana fyrir atlöguna að Gísla Þór, 27. apríl í fyrra, hótunum ákærða í garð þeirra Gísla og hennar upplifun af morgninum örlagaríka.

Því næst gaf ákærði í málinu, Gunnar Jóhann Gunnarsson, sína framburðarskýrslu, kvaðst játa sig sekan um manndráp af gáleysi, ekki ásetningi eins og ákæran hljóðar upp á, og játaði sök í öllum öðrum ákæruliðum, líflátshótunum, húsbroti á heimili hálfbróður síns, stuldi á bifreið hans og akstri undir áhrifum. Gerði Gunnar Jóhann ítarlega grein fyrir líðan sinni síðustu dagana fyrir voðaatburðinn og sagði svo frá því hvernig hann hefði farið um borð í bát sem hann hefði haft aðgang að og sótt þar tvíhleypta haglabyssu af hlaupvíddinni 12 ga. áður en hann hélt á heimili hálfbróður síns á sjötta tímanum um morguninn og beið hans þar.

Sjá baksviðsgrein um réttarhaldið í Mehamn í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert