Starfsmenn LSH með grímu geta komist hjá sóttkví

Einstaklingar með grímu geta komist hjá því að sæta sóttkví
Einstaklingar með grímu geta komist hjá því að sæta sóttkví mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímunotkun getur forðað starfsmönnum Landspítalans (LSH) frá því að sæta sóttkví. Þó þarf viðkomandi aðili að hafa virt fjarlægðarmörk og passað upp á sóttvarnir.

Þetta segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala. Segir hún að miðað sé við umrædda reglu þegar starfsmenn spítalans eiga í hlut. Þannig hafi spítalanum tekist að fækka starfsmönnum sem sæta þurfi sóttkví.

„Ef fólk sinnir sóttvörnum, virðir fjarlægðarmörk og er með grímu getur það komist hjá sóttkví. Núna fara miklu færri heilbrigðisstarfsmenn í sóttkví en í fyrri bylgju. Í fyrri bylgjunni var gríman ekki almenn og á þeim stöðum þar sem fólk var ekki með grímu, t.d. í Skaftahlíðinni, var talsvert af smitum,“ segir Anna sem tekur fram að grímur spítalans séu frábrugðnar hefðbundnum grímum.

Uppfært kl. 10:45:

Vegna fréttarinnar í Morgunblaðinu og fyrirsagnar hafði Anna Sigrún Baldursdóttir samband við blaðið og vildi árétta að eingöngu starfsmenn Landspítalans, sem nota grímur spítalans og virða fjarlægðarmörk og passa upp á sóttvarnir, geta komist hjá sóttkví eftir sérstakt mat rakningarteymis Landspítala. Þetta eigi ekki við um almenna notkun á grímum úti í samfélaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert