440 íbúðir á sex þéttingarreitum

Reitirnir sex eru í Breiðholti, Árbæ, Bústaðahverfi og Háaleitishverfi.
Reitirnir sex eru í Breiðholti, Árbæ, Bústaðahverfi og Háaleitishverfi. Kort/Reykjavíkurborg

Samtals 440 íbúðir gætu risið á sex þéttingarreitum í Reykjavík verði tillögur Reykjavíkurborgar um breytingu á aðalskipulagi þessara sex reita samþykkt. Þrír reitir eru í Breiðholti og tengjast þeir einnig áformum um breytt hverfisskipulag sem kynnt var í síðasta mánuði. Þá er um að ræða reit við Vindás í Árbæ, annan við gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar og svo við Bústaðaveg og Furugerði, þar sem lengi vel var Gróðrarstöðin Grænahlíð.

Tillagan að breytingunni hefur undanfarið verið í auglýsingu, en ljóst er að ekki eru allir nágrannar sáttir með það sem þar er lagt til.

Sex reitir og 440 íbúðir

Fyrsti reiturinn sem um ræðir er Arnarbakki í Breiðholti. Þar er horft til þess að stækka núverandi hverfiskjarna og skilgreina reit undir íbúðarbyggð. Auk atvinnuhúsnæðis er þar gert ráð fyrir allt að 150 íbúðum og er sérstaklega tekið fram að þar á meðal verði nemendaíbúðir.

Í Arnarbakka er fyrirhugað að íbúðir rísi utan um verslun …
Í Arnarbakka er fyrirhugað að íbúðir rísi utan um verslun og þjónustu Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Næsti reitur er Eddufell-Völvufell í Breiðholti. Er þar bæði horft til þess að stækka verslunar- og þjónustusvæði, en einnig íbúðabyggð upp á 150 íbúðir. Í núverandi aðalskipulagi hefur þar verið gert ráð fyrir allt að 50 íbúðum þannig að þetta væri fjölgun upp á 100 íbúðir.

Þriðji reiturinn er Rangársel í Breiðholti. Þar er líkt á hinum reitunum á undan gert ráð fyrir stækkun verslunar- og þjónustusvæðis, en auk þess að auka við mögulegt byggingarmagn íbúðabyggðar. Í dag er í aðalskipulagi heimild fyrir 10 íbúðum, en samkvæmt tillögunni gæti fjöldinn farið upp í 100 íbúðir.

Fjórði reiturinn er á horni Háaleitisbrautar og Miklubrautar, rétt sunnan við verslunarmiðstöðina Miðbæ. Þar er gert ráð fyrir í tillögunni 3-5 hæða fjölbýli með 50 íbúðum, en í dag er þar óbyggður reitur.

Fimmti reiturinn er á milli Bústaðavegar og Furugerði í Bústaðahverfi. Er bæði um að ræða reit þar sem Gróðrarstöðin Grænahlíð var áður og reitinn þar við hliðina á, sem er fyrir neðan Espigerði á horni Bústaðavegs og Grensásvegs. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að þar geti orðið 30 íbúðir í lágreistri byggð, en í dag er þar aðeins gert ráð fyrir 4-6 íbúðum.

Að lokum er það reitur við Vindás og Brekknaás í Árbæ. Þar er horft til að fjölga íbúðamagni á áður skilgreindum reit fyrir íbúðabyggð þannig að heimilt magn verði 60 íbúðir auk búsetukjarna fyrir fatlaða í stað 20 íbúða áður.

Tryggi aukið framboð íbúða á viðráðanlegu verði

Í auglýsingu vegna tillögunnar segir að markmið breytingarinnar sé að tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis í borginni í samræmi við megin markmið húsnæðisstefnu aðalskipulagsins og að stuðla að auknu framboði íbúða á viðráðanlegu verði. Þá eigi þetta einnig að stuðla að bættri nýtingu svæða innan borgarinnar og sterkari hverfisheildir.

Drög að tilkynningu voru kynnt íbúum í júní og svo lögð fram í framhaldinu. Tekið er fram í auglýsingunni að framkomnar umsagnir leiði að svo stöddu ekki til breytinga, ef frá er talið að stækkun verslunar- og þjónustukjarna við Arnarbakka var minnkuð úr 1 hektara í 0,6 hektara.

Ekki allir nágrannar sáttir

Í athugasemdum sem hafa borist vegna auglýsingarinnar gera íbúar í nágrenni við reitinn á Háaleitisbraut meðal annars athugasemdir við að grunnt sé niður á klöpp á svæðinu og útséð að sprengja þurfi mikið, sérstaklega ef gera eigi ráð fyrir bílakjallara. Óttast íbúarnir skemmdir á húsnæði í nágrenninu vegna þessa. Þá er einnig lýst yfir áhyggjum af bílastæðum á svæðinu, en aðeins er gert ráð fyrir bílastæðum fyrir íbúa í nýja skipulaginu.

Íbúar við Furugerði gera einnig athugasemdir við bílastæða- og aðkomumál, sem og hvernig verktakar eigi að athafna sig á svæðinu. Þá er að sama skapi lýst áhyggjum af því að grunnt sé á klöpp og óvissa með tryggingamál vegna fleygunnar eða sprenginga. „Hvar munu íbúar getað leitað réttar síns vegna mögulegra skemmda á húsum vegna nýbyggingarinnar,” er spurt í einni athugasemdinni. Tekið er fram að íbúar hafi alltaf vitað að þarna yrði byggt, en að fimmföldun á íbúðafjölda sé eitthvað sem þeir hafi ekki átt von á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert