584 börn bíða sérhæfðar greiningar

Barna- og unglingageðdeild Landspítala BUGL.
Barna- og unglingageðdeild Landspítala BUGL. mbl.is/Hari

Á Þroska- og hegðunarstöð bíða 584 börn eftir sérhæfðri þverfaglegri greiningu í kjölfar þess að frumgreining/skimun hefur sýnt sterkar vísbendingar um geðheilbrigðisvanda, svo sem ADHD, kvíða og annan tilfinningavanda, einhverfuróf, hegðunar- og samskiptavanda 3 auk námserfiðleika.

Meiri hluti þessara barna glímir við vanda á fleiri en einu sviði. Börnin eru á aldrinum sex til 18 ára og af þeim bíða um 200 sérstaklega eftir greiningu vegna hamlandi einhverfurófseinkenna.

Hvað varðar meðferð eru flest barnanna þó þegar komin í einhver úrræði, t.d. á vegum skóla, heilsugæslustöðva eða sjálfstætt starfandi fagaðila. Fullnaðargreining vandans er þó mikilvæg til að leggja sem best mat á hvers konar meðferð og úrræði eru líklegust til að skila árangri. Má þar nefna að til að hefja lyfjameðferð við ADHD eða skyldum röskunum þarf að liggja fyrir fullnaðargreining. Áætlað er að 300–400 þeirra barna sem eru á biðlistanum bíði eftir viðeigandi meðferðarþjónustu vegna síns vanda. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Inga Kristinssyni um úrræði fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.

Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) eru 15 heilsugæslustöðvar. Upplýsingar um hversu mörg börn bíða eftir meðferð og greiningu þar lúta annars vegar að bið eftir sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum og hins vegar bið eftir þjónustu á Þroska- og hegðunarstöð.

Í heild bíða 159 börn eftir greiningu og meðferð á heilsugæslustöðvum. Á tveimur þessara 15 heilsugæslustöðva bíður ekkert barn en á einni heilsugæslustöð bíða 25 börn. Leitast er við að forgangsraða málum eftir alvarleika vandans og nú er verið að fjölga stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslustöðvum þar sem þörfin er mest segir í svari heilbrigðisráðherra.

Guðmundur spurði hversu margir eru á biðlista eftir innlögn á barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL)?  Um miðjan september 2020 biðu níu börn eftir innlögn á legudeild BUGL.

 Stærsti hluti innlagna á legudeild BUGL eru bráðainnlagnir. Slíkar innlagnir gerast samdægurs og teljast 80–90% allra innlagna á BUGL til slíkra innlagna. 

 „Þegar mikið álag er á bráðaþjónustu lengist biðtími þeirra sem eru á almennum biðlista. Biðtími eftir slíkri innlögn getur verið frá viku til nokkurra mánaða. Í því sambandi ber þó að geta þess að öll börn sem eru á biðlista eftir innlögn eru í virkri þjónustu göngudeildar BUGL. Meðalbiðtími göngudeildarþjónustu BUGL er nú um sjö og hálfur mánuður.“

Á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar (BUGL) bíða 107 börn eftir greiningu og meðferð. Að þarfagreiningu lokinni er metið hvort börn þurfi meðferð á BUGL eða hvort nærumhverfi geti tekið við þeim aftur. Þess ber að geta að BUGL hefur í tólf ár verið þátttakandi í samráðsteymum heilsugæslu, félagsþjónustu, barnaverndar og skólaþjónustu. Samráðsteymin tengja saman þjónustu í nærumhverfi barna á heildrænan hátt til þess að veita börnum þann stuðning, úrræði og meðferð sem þau þurfa til þess að dafna og njóta farsældar. Í dag eru 19 virk samráðsteymi, flest á höfuðborgarsvæðinu en einnig nokkur á landsbyggðinni, segir enn fremur í svari Svandísar.

Hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) bíða núna samtals 10 börn og ungmenni eftir greiningu og meðferð hjá Barna- og unglingageðteymi SAk (BUG-teymi). Til viðbótar á eftir að taka fyrir mál 11 annarra barna og ungmenna og hafa þau því ekki hlotið afgreiðslu.síns vanda.

Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) eru 32 börn og ungmenni yngri en 18 ára á biðlista eftir þjónustu.

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST) eru sjö börn á biðlista eftir þjónustu hjá sálfræðingi.

Á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) eru 14 börn á biðlista eftir meðferð/greiningu sálfræðinga í sálfélagslegri þjónustu HSN. Fjöldi barna á biðlistanum getur þó sveiflast nokkuð.

Á Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) eru 95 börn á biðlista eftir sálfræðimeðferð innan heilsugæslu HSA.

Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) eru 132 börn á biðlista eftir sálfræðiþjónustu. Flest börn bíða í Árborg eða 70, í Rangárþingi eru 22 börn sem bíða en á öðrum svæðum eru innan við 10 börn á biðlista.

Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) eru nú 33 börn á bið hjá forvarnar- og meðferðarteymi barna. Börn sem eru tekin af biðlista fara bæði í gegnum greiningu á geðrænum vanda og meðferð við þeim vanda. Í fáeinum tilvikum hafa börnin farið í gegnum greiningarferli, t.d. hjá skólasálfræðingi, áður en þeim er vísað í teymið.

Svar ráðherra í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert