Ákveðið hefur verið að hefja sölu á jólabjór í Vínbúðunum einni viku fyrr en verið hefur síðustu ár. Fram til þessa hefur salan jafnan hafist í kringum 15. nóvember en að þessu sinni hefst hún fimmtudaginn 5. nóvember.
„Helsta ástæðan er að ástandið í samfélaginu er sérstakt. Með því að færa upphaf sölunnar fram um eina viku eru Vínbúðirnar að færast nær því tímabili þar sem sala hefur almennt hafist á börum, veitingahúsum og í Fríhöfninni,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.
Jólabjórinn hefur notið mikilla vinsælda hér á landi og hefur tegundum fjölgað með hverju árinu. Að sögn Sigrún er von á tæplega 100 tegundum af jólabjór þetta árið.