Áform um friðlýsingu Urriðakotshrauns í Garðabæ sem fólksvangs eru komin í kynningu. Umhverfisstofnun kynnir áformin í samstarfi við Garðabæ og Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowa. Unnið er að deiliskipulagi svæðisins og hægt er að skila athugasemdum fram til 4. desember næstkomandi, að því er fram kemur á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8.100 árum og er þar nokkuð um hraunhella. Svæðið býr yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og í því felast miklir möguleikar til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu, segir á vef Stjórnarráðsins.
Í umfjöllun um þessi áform í Morgunblaðinu í sumar kom fram að Búrfellsgjá varð til í miklu eldgosi fyrir um átta þúsund árum í litlum eldgíg, sem nefnist Búrfell. Í eldgosinu flæddi hraun úr gígnum niður á láglendið og út í sjó. Hraunin í miðbæ Hafnarfjarðar, í Garðabæ og Gálgahraun úti á Álftanesi eiga öll uppruna sinn í Búrfelli og Búrfellsgjá.
Friðlýsing Búrfells og gjánna er liður í stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um átak á þessu sviði. Var það kynnt í ríkisstjórninni í júlí 2018. Í stjórnarsáttmálanum er fjallað um efnið og kemur þar fram að friðlýsa skuli svæði í verndarflokki rammaáætlunar og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum. Enn fremur segir þar að stofna skuli þjóðgarð á miðhálendinu og beita friðlýsingum sem stjórntæki á viðkvæmum svæðum sem eru undir álagi ferðamanna.
Umhverfisstofnun kynnir nú einnig áform um endurskoðun friðlýsingar Skógafoss og nágrennis. Um er að ræða breytingar á mörkum náttúruvættisins ásamt endurskoðun á friðlýsingarskilmálum.
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstakar náttúruminjar, Skógafoss og ásýnd hans, vistgerðir og líffræðilega fjölbreytni, sem og ána sjálfa og fossaröð hennar.