Skilar tugum milljarða króna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir aðgerðir stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamningunum. Aðgerðirnar …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir aðgerðir stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamningunum. Aðgerðirnar eru sagðar geta afstýrt miklu tjóni á vinnumarkaði mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningunum eru sagðar geta skilað atvinnulífinu tugum milljarða á næstu árum. Um leið afstýri þær miklu tjóni á vinnumarkaði.

Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) ákvað að samningarnir giltu áfram og voru því ekki greidd atkvæði um uppsögn þeirra. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir boðaðar skattaívilnanir til fjárfestinga kunna að skila milljörðum, ef ekki tugum milljarða, í aukna atvinnuvegafjárfestingu á næstu árum. Þá m.a. í sjávarútvegi, iðnaði, verslun og þjónustu og orkufrekum iðnaði.

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, segir ekki ósennilegt að verðmæti þess að afstýra verkföllum hlaupi á tugum milljarða litið til næsta árs. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka verður 8,6% samdráttur í vergri landsframleiðslu í ár.

Við kynningu á spánni kom fram að lánafrystingar væru að renna út.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir það hafa komið fram í sex mánaða uppgjöri bankans að nærri 20% af lánasafni hans séu í frystingu, að stærstum hluta eru það lán til fyrirtækja. Óvissan hafi verið mikil og skilyrðin fyrir frystingu ekki verið ströng í upphafi.

Samkvæmt uppgjörinu námu frystingar vegna íbúðalána rúmum 30 milljörðum en frystingar til fyrirtækja tæplega 150 milljörðum. Að sögn Birnu hefur bankinn áætlað að um 50% þessara fyrirtækja muni geta farið í eðlilegt greiðsluflæði þegar frystingu er aflétt. Hinn helmingurinn sé að stærstum hluta í ferðaþjónustu og þar muni lífvænleg fyrirtæki þurfa áframhaldandi frystingu, eða til dæmis einhver hinna sértæku úrræða sem ríkisstjórnin hefur kynnt.

Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur bankans, að ef ferðamönnum fjölgi úr 500 þúsund í ár í 800 þúsund á næsta ári, skv. þjóðhagsspánni, muni það skapa 3.000 störf. Komi bóluefni hins vegar ekki fyrir næsta sumar, og háönnin í ferðaþjónustu bregðist, verði 3-4.000 fleiri án vinnu og atvinnuleysi yfir 9% á næsta ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert