Varasöm ísing er á götum á höfuðborgarsvæðinu og nauðsynlegt fyrir ökumenn að fara varlega í morgunsárið. Eins að gefa sér tíma til að skafa rúður.
Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að kjöraðstæður fyrir hálku hafi myndast eftir töluverða rigningu í gær en það stytti upp snemma í gærkvöldi og kólnaði. Þá hafi fryst við yfirborð en víðast á höfuðborgarsvæðinu var 1-2 stiga hiti á mælum Veðurstofunnar. Þess ber að gæta að þeir eru í tveggja metra hæð og því væntanlega frost við jörðu. Í Víðidal var þriggja stiga frost í nótt og við frostmark við Korpu. Búast megi við að akstursskilyrði batni um leið og fer að birta segir Daníel.
Lesendur mbl.is hafa haft samband við mbl.is og viljað vara við því að lúmsk hálka sé víða og þar sem flestir eru á sumardekkjum hafi margir misst stjórn á bifreiðum sínum.