„Við Gísli vorum nánustu aðstandendur hvor annars“

„Minningin um Gísla mun alltaf lifa í mínu hjarta og …
„Minningin um Gísla mun alltaf lifa í mínu hjarta og skömmin verður alltaf mín vegna þess sem gerðist.“ Gunnar Jóhann hefur setið í fangelsi síðan hann var handtekinn að morgni 27. apríl í fyrra. Á næstu vikum ákveður héraðsdómur refsingu hans en saksóknari krafðist 13 ára fangelsis í lokaræðu sinni í gær. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég var svo heppinn að ég á pabba sem hætti að drekka '86 og flutti frá móður minni, tók mig með sér og ól mig upp. Þannig að ég ólst ekki beint upp í öllu fylleríinu og ruglinu sem var heima hjá móður minni eins og bróðir minn þurfti að gera.“

Með þessum orðum hefst frásögn Gunnars Jóhanns Gunnarssonar þar sem við sitjum í heimsóknaherbergi á hámarksöryggisgæsludeild fangelsisins í Vadsø, sveitarfélagi örskammt frá landamærum Noregs og Rússlands. Nyrstu héruð Íslands eru langt í suðri. Næsta stóra byggðarlag frá þessari steypuveröld öryggisgæsludeildarinnar talið er Murmansk í Rússlandi.

Enginn veggur deildarinnar lítur út fyrir að mælast minna en metri af steinsteypu á þykkt. Vinalegt timburhús er þó fyrsta álma þegar komið er inn á lóð fangelsisins. Dráttarvél með kerru stendur á hlaðinu.

Öll raftæki, þar á meðal símar, eru tekin af gestum. Hringja þarf bjöllu og fá fangavörð í heimsóknaherbergið, þar sem næstu landamæri eru þykk stálhurð, til að fá síma afhentan og fá að taka myndir af viðmælanda undir vökulu eftirliti. Upptökutækið fékk þó að vera viðstatt allan tímann.

Réttarhöldin verulega erfið

Eins og lesendum ætti mörgum hverjum nú að vera fullkunnugt situr þessi tæplega fertugi Suðurnesjamaður, sjómaður og síðustu ár krabbaveiðimaður í Mehamn í Noregi, í varðhaldi, grunaður um að hafa skotið hálfbróður sinn, Gísla Þór Þórarinsson, til bana snemma morguns 27. apríl í fyrra.

Fangelsið í Vadsø í Finnmörk, skammt frá rússnesku landamærunum. Langa …
Fangelsið í Vadsø í Finnmörk, skammt frá rússnesku landamærunum. Langa byggingin fjærst hýsir hámarksöryggisgæsludeildina. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Gísli Þór og Elena Undeland, barnsmóðir Gunnars og fyrrverandi eiginkona, höfðu þá fundið ástina, voru orðin par og hugðust hefja sambúð í kjölfar þess að til skilnaðar kom milli Gunnars og Elenu.

Gunnar og Bakkus voru vel málkunnugir og rúmlega það, á tímabili var samneyti þeirra daglegt. Gunnar átti í vandræðum með áfengi, frá því greindi hann við aðalmeðferð málsins sem nú er nýlokið í Vadsø. „Ég er alkóhólisti,“ sagði Gunnar við skýrslugjöf á mánudaginn í síðustu viku og játaði í kjölfarið að honum væri fullkunnugt um að hann væri erfiður, hann væri hávær og hvatvís. „Ég sagði oft alls konar hluti sem ég meinti ekki þegar ég var að drekka,“ viðurkenndi Gunnar Jóhann fyrir héraðsdómendum.

Gunnar hefur viðurkennt margt fleira fyrir viðstöddum í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur síðustu daga og farið þar ítarlega yfir andlegt ástand sitt hina örlagaríku daga í apríl 2019 auk þess sem heimilislæknir hans og fleiri læknar hafa lagt fram sinn vitnisburð.

„Þetta er náttúrulega búið að vera hrikalega erfitt, bara það erfiðasta sem ég hef farið í gegnum,“ segir Gunnar þegar blaðamaður spyr hann út í upplifun hans af réttarhöldunum en meðal vitna sem tjáðu sig fyrir héraðsdómi í síðustu viku var faðir hans, Gunnar Guðbjörnsson.

Veit ekki hvort ég kalla það góðar minningar

„Við Gísli bróðir minn vorum nánustu aðstandendur hvor annars þótt við höfum verið hálfbræður, ég á tíu hálfsystkini,“ segir Gunnar. „Við erum báðir úr Njarðvíkunum, ég ólst upp í Innri-Njarðvík, hann í Ytri-Njarðvík. Alla tíð vorum við Gísli bestu vinir og við lékum okkur mikið saman sem börn,“ rifjar hann upp. „Hann var náttúrulega fimm árum eldri en ég, hann var stóri bróðir minn og passaði alltaf upp á mig. Við gerðum alltaf allt fyrir hvor annan, alltaf þegar hringt var og beðið um eitthvað var aldrei sagt nei. Allir í Njarðvík sem þekktu okkur Gísla, vinir og fjölskylda og aðrir, allir vita það að við Gísli vorum bestu vinir.“

Hvað með móðurina og fyrstu æskuminningar?

„Ég veit nú ekki hvort ég á að kalla það góðar minningar svo sem en ég man að mamma hótaði alltaf að láta [...] koma og flengja okkur ef við hefðum ekki lægra þegar ég kom í heimsókn heim til hennar og við Gísli vorum að leika okkur,“ segir Gunnar.

Hálfbræðurnir Gunnar og Gísli ungir. Gunnar kveður vinasamband þeirra hafa …
Hálfbræðurnir Gunnar og Gísli ungir. Gunnar kveður vinasamband þeirra hafa verið einstakt og játar að hann hafi með gjörðum sínum brugðist öllum í kringum þá Gísla. Ljósmynd/Gunnar Guðbjörnsson

„Móðir mín var með sex afbrigði af geðsjúkdómum og var inn og út af Kleppi og geðdeild Landspítalans. Hún átti sér engan afbrotaferil, ég held að hún hafi misst bílprófið reyndar einhvern tímann þegar hún keyrði út af í einverju maníukasti. En mamma var rosalega góð kona, ég elskaði hana mjög heitt. Hins vegar var það þannig að í fjölskyldunni var hver höndin upp á móti annarri vegna veikinda hennar.

Ég gerði allt sem ég gat fyrir mömmu og stóð alltaf með henni. Það hafa orðið leiðindi milli okkar systkinanna sem snerust um það hver ætlaði að taka hvora hliðina [í sambandi við veikindi móðurinnar] en alltaf vorum við Gísli vinir í þessu öllu. Mamma dó á gólfinu heima hjá sér árið 2012, alein og yfirgefin. Sum barna hennar töluðu ekki við hana og það var mjög erfitt fyrir mig að missa hana,“ segir Gunnar.

Pabbi fór í meðferð '86

Hann hafi í raun aldrei fengið að vita dánarorsök móður sinnar sem var miklum lyfjum háð til að koma sér í gegnum daginn. „Hún reykti líka eins og strompur og ég held bara að hjartað í henni hafi gefið sig. Við Gísli jörðuðum hana saman og við sáum um erfidrykkjuna.“

Segir Gunnar móður sína hafa átt vingott við ýmsa karlmenn. „Og þær aðstæður komu alveg upp að við Gísli þurftum að fara og...ja, taka til hendinni, þegar einhverjir höfðu farið yfir strikið gagnvart henni,“ segir Gunnar og nefnir dæmi um mann sem hefði byrlað móður þeirra ólyfjan.

Hann segir alla fjölskylduna hafa verið litaða af veikindum móðurinnar. „Mamma mín gerði ýmislegt slæmt við nánast öll börnin sín, maður þurfti að horfa upp á margt og þetta var ekki alltaf fagurt líf. Þótt pabbi hafi alið mig upp var ég alltaf í sambandi við mömmu.

Hann vildi hætta að drekka en mamma vildi það ekki. Pabbi fór í meðferð '86 og hann hefur sagt mér að það sem hafi bjargað honum var að hafa mig og þurft að bera ábyrgð á mér af því að við vorum bara tveir. Pabbi hugsaði rosalega vel um mig, það var alltaf til matur í ísskápnum og allt til alls,“ segir Gunnar og nefnir sérstaklega minnisstætt jólahald með föður sínum.

Verjandi Gunnars, Bjørn Andre Gulstad, sló botninn í málflutning sinn …
Verjandi Gunnars, Bjørn Andre Gulstad, sló botninn í málflutning sinn fyrir héraðsdómi með þriggja klukkustunda ræðu í gær. Hann kveður atburðinn á heimili Gísla slys og gáleysi og krefst að hámarki fimm ára dóms yfir skjólstæðingi sínum. Þeir Torstein Lindquister héraðssaksóknari hafa farið mikinn í vangaveltum sínum um ásetning og gáleysi síðustu tíu dagana. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„En þegar kom að skólagöngu og svona þá var pabbi ekkert með fingurinn í skólabókunum, það var bara ekki hans, og mér gekk aldrei vel í skóla. Mig minnir að ég hafi átt hálfan vetur eftir af 10. bekk þegar skólastjórinn klappaði á öxlina á mér og spurði mig hvort ég vildi ekki bara fara út að vinna eða eitthvað og þá byrjaði ég á sjó,“ segir Gunnar frá. Þetta hafi verið skömmu fyrir aldamót og allar götur síðan hafi hans atvinna tengst sjávarútvegi.

„Þegar ég var ungur snerist lífið í Keflavík bara um að verða sjómaður og eignast smávegis af peningum, komast á einhvern af þessum flottustu bátum sem þá voru, Happasæl, Stafnesið eða Styrmi.“

Flutningar til Noregs

Talinu víkur að flutningum sjómannsins til Noregs löngu síðar, hvernig kom það til?

„Við Elena fluttum hingað til Noregs þegar við fengum vinnu í fiskverkun í Gamvik og ætluðum að fara að vinna þar. Ég þekkti Íslending í Gamvik, hafði verið á sjó þarna í einn eða tvo mánuði áður, ég hringdi í hann, Albert Eggertsson heitir hann, og hann útvegaði okkur vinnu,“ er svarið.

Gunnar sagði Elenu svo hafa orðið ólétta af Gísla syni þeirra sem þeim hefði verið innilegt gleðiefni. „Ég var svo ánægður með að ég væri að fá strák og það kom aldrei neitt annað til greina en að hann fengi nafnið Gísli, ég byrjaði að kalla hann það á meðan hann var enn í móðurkviði,“ segir Gunnar frá.

Hálfbræðurnir á kóngakrabba við Mehamn. Gunnar segir þann dag koma …
Hálfbræðurnir á kóngakrabba við Mehamn. Gunnar segir þann dag koma að hann þurfi að setjast niður með börnunum sínum og útskýra hvað hafi gerst þar í bænum 27. apríl 2019. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hann hafi svo keypt sér bát með góðs manns fulltingi og gert út frá Gamvik. Þó nokkrir Íslendingar eigi nú báta þarna í nyrstu véum Noregs, við opið gin Barentshafsins. „Þetta er ekkert hægt á Íslandi, þú færð engum kvóta úthlutað þar, en hérna er krabbakvótinn mjög verðmætur þannig að það er miklu auðveldara að byrja hér úti en nokkurn tímann á Íslandi, þar er þetta ekkert hægt nema þú eigir einhverjar milljónir,“ segir Gunnar.

Svo líða árin, Gunnar og Elena skilja og sú atburðarás sem rifjuð var upp að hluta í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur mánudaginn 21. september á sér stað.

Síðustu dagana fram að 27. apríl 2019 leitar Gunnar sér aðstoðar á geðdeild í Karasjok. „Þegar ég kom þarna inn á þessa deild talaði ég ekki við neinn lækni. Ég kom þarna náttúrulega til að leita mér hjálpar en það eina sem mætti mér þarna voru grenjandi stuðningsfulltrúar sem grétu bara með mér,“ segir Gunnar.

Segist hann hafa vonast til þess að Gísli Þór hætti sambandi sínu við Elenu, ekki nóg með það heldur hafi hann viljað að Gísli yfirgæfi Mehamn.

Þykir mjög leiðinlegt hvernig fór

„Ég var búinn að vera mjög langt niðri þarna og Gísli vissi það alveg, hann vissi alveg sjálfur hvað það var að lenda í slæmri ástarsorg,“ segir Gunnar og rifjar upp frásögn sem áheyrendur í héraðsdómi höfðu áður fengið að heyra af því þegar Gísli Þór var mjög langt niðri mörgum árum áður.

„Mér þykir þetta mjög leiðinlegt hvernig þetta allt fór. Eins hvernig samskiptin voru á milli okkar Elenu, við vorum að skilja og það voru deilur á milli okkar eins og svo oft er hjá fólki við skilnað og ég skil auðvitað hvernig henni er búið að líða eftir að þetta gerðist í fyrravor. Ég er sjálfur búinn að vera alveg í rusli yfir þessum atburði og öllu sem gerðist þarna og það er engin reiði í mér lengur, hvorki í garð Elenu né bróður míns.

Þessir tíu dagar sem við Gísli vorum óvinir þarna í fyrra voru einu tíu dagarnir í okkar sambandi sem illt var á milli okkar. Minningin um Gísla mun alltaf lifa í mínu hjarta og skömmin verður alltaf mín vegna þess sem gerðist,“ segir Gunnar.

Aðstaðan í heimsóknaherberginu á hámarksöryggisgæsludeild fangelsisins í Vadsø þar sem …
Aðstaðan í heimsóknaherberginu á hámarksöryggisgæsludeild fangelsisins í Vadsø þar sem viðtalið fór fram. Hringja þurfti bjöllu og biðja fangavörð að koma með símann fyrir myndatöku. Verjandi Gunnars brá sér í hlutverk ljósmyndara. Ljósmynd/Bjørn Andre Gulstad

Hann kveðst einnig vilja tjá systkinum sínum og öllum öðrum í fjölskyldu sinni hve leitt honum þyki hvernig fór. „Mér finnst alveg ömurlegt hvernig ég brást öllum, systkinum mínum og eins þeim sem elskuðu Gísla og vinum hans. Sumir í fjölskyldu minni munu aldrei tala við mig aftur og það er mér ákaflega þungbært.“

Segist Gunnar þrátt fyrir allt hafa fundið fyrir stuðningi úr ýmsum áttum, við hann hafi haft samband fólk sem hann hafi ekki heyrt frá árum saman. „Ég er langt frá því að vera einn, maður sér það kannski fyrst þegar maður lendir í svona krísu hvað maður á marga góða að. Ég er moldríkur af fólki og ég er mjög þakklátur fyrir það,“ segir Gunnar og leggur ríka áherslu á þau orð sín.

Ekkert dóp hérna

Segist Gunnar enn fremur hafa fengið mikla hjálp þann tíma sem hann hefur verið innan veggja fangelsisins og ber hann starfsfólki og samföngum mjög vel söguna auk þess heilbrigðisstarfsfólks sem hann hafi haft aðgang að. „Ég gæti ekki verið í betri höndum í þessu fangelsi, ég hef fengið góðan stuðning frá öllum,“ segir hann og kveður það ákaflega jákvætt að engin fíkniefni séu í umferð í fangelsinu.

„Það er ekkert dóp hérna, sem er mjög gott, það er það síðasta sem ég þarf í kringum mig núna. Á Litla-Hrauni fórstu bara í næsta klefa og þá varstu kominn með fíkniefni, þar var allt vaðandi,“ segir Gunnar sem á sér afbrotaferil á Íslandi og sat í afplánun þar. Kveður hann flesta samfanga sína í Vadsø Norðmenn þótt þangað komi einnig Rússar og Litháar og samfélagið í fangelsinu sé mjög gott.

„Ef ég hins vegar rifja upp fyrstu dagana mína hérna inni þá finnst mér eiginlega ótrúlegt að ég sitji hérna núna og tali við þig,“ segir Gunnar sem fór rakleiðis í fangelsið í Vadsø eftir handtökuna í Mehamn og hefur setið þar síðan. „Ég hugsaði ekki um annað en að taka mitt eigið líf þessa fyrstu daga. Síðan hef ég auðvitað fengið mikla aðstoð sálfræðinga og geðlækna og ég er allt annar maður, andlega, núna en í fyrravor. Ég er auðvitað langt frá því að vera heill eftir þetta og ég á eftir að vinna mikið í sjálfum mér og þarf ekki á neinni vorkunn að halda, ég á alveg nóg með sjálfan mig,“ segir Gunnar.

Markmiðið að vera edrú

Hann segir stefnuna í sínu lífi nú eingöngu geta verið upp á við. „Ég ætla að nýta þann tíma sem ég verð hérna inni til að mennta mig og fara í skóla hérna. Mitt aðalmarkmið núna og í framtíðinni verður að vera edrú og vera til staðar fyrir börnin mín, ég skulda þeim það. Einhvern tímann kemur sá dagur að ég þarf að setjast niður með börnunum mínum og útskýra fyrir þeim hvað gerðist í Mehamn 27. apríl 2019.

Þá vil ég geta verið þeim sama fyrirmynd og pabbi minn var mér, að ég hafi hætt að drekka og verið til staðar. Það er númer eitt, tvö og þrjú hjá mér núna, að vera til staðar fyrir börnin mín,“ segir Gunnar Jóhann Gunnarsson að lokum, þar sem við setjum punktinn við samtal okkar í hámarksöryggisgæsludeild fangelsisins í Vadsø í Austur-Finnmörk í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert