760.000 krónur á mann í heilbrigðiskerfið

Útgjöld til heilbrigðismála aukast um 12,8% frá fjárlögum síðasta árs.
Útgjöld til heilbrigðismála aukast um 12,8% frá fjárlögum síðasta árs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Útgjöld ríkisins til heilbrigðismála verða 274 milljarðar króna á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Er útgjaldaliðurinn sem fyrr sá langstærsti á fjárlögum eða um 26%. Jafngildir það um 760.000 krónum á hvern Íslending.

Inni í þeim tölum er bæði rekstrarkostnaður og fjárfestingarkostnaður, en í síðarnefnda flokknum munar mestu um útgjöld vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut sem verða 11,9 milljarðar króna.

Útgjöldin aukast um 12,8% frá fjárlögum ársins 2020, en rétt er að taka fram að raunútgjöld yfirstandandi árs verða að öllum líkindum hærri en lagt var upp með í fjárlögum þess árs vegna kórónuveirufaraldursins.

Stærsti einstaki útgjaldaliðurinn er sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, en í hana fara 104,8 milljarðar króna, og í almenna sjúkrahúsþjónustu 12,2 milljarðar króna. Af þessu fé fara 77,9 milljarðar króna í rekstur Landspítala en 9,5 milljarðar í rekstur Sjúkrahússins á Akureyri. Þá greiðir ríkið tæpan 3,1 milljarð  króna í erlenda sjúkrahúsþjónustu sem er 14% aukning frá fjárlögum árins í ár.

Útgjöld til heilsugæslu aukast um 10,5% milli ára og verða 33,1 milljarður króna. Þá aukast útgjöld til hjúkrunar- og dvalarrýma um 10,3% og verða 56,1 milljarður króna.

Nánari sundurliðun á útgjöldum til heilbrigðismála og breytingu milli ára má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert