„Fátækt fólk þarf enn að bíða“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Öryrkjabandalag Íslands lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnarsem kynnt var í dag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum. Örorkulifeyrir hækkar um 3,6% um næstu áramót, sem er rétt umfram ársverðbólgu.

Samkvæmt frumvarpinu verður framfærsluviðmið almannatrygginga 265.044 krónur eða 86 þúsund krónum lægri en lágmarkstekjutrygging fólks í fullu starfi, sem verður á næsta ári 351.000 krónur.

Við leyfðum okkur að vona, en það er nú ljóst að engin breyting verður, fagurgali ríkisstjórnarinnar um að útrýma fátækt eru bara það, fagurgali. Enn eitt árið er öryrkjum haldið rígföstum í fátækragildru og enn breikkar bilið milli örorkulífeyris og lágmarkstekjutrygginar,“ er haft eftir Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formanni Öryrkjabandalagsins.

Í tilkynningunni er fast skotið á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. „Hafi einhver átt von á að í því frumvarpi leyndust efndir yfirlýsinga Katrínar sem stjórnarandstæðings, frá því fyrir um 4 árum, verður viðkomandi fyrir vonbrigðum. Hækkun örorkulífeyris verður 3,6% um næstu áramót. Fátækt fólk þarf því enn að bíða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert