Fullyrðingar hægrimanna dæmi sig nú endanlega sjálfar

Logi Einarsson, formaður Samfylkinginnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkinginnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að mikilvægi ríkisvaldsins og sterkrar almannaþjónustu hafi sjaldan birst jafn skýrt og nú. Heilbrigt samfélag þurfi öfluga samneyslu, jöfnuð, fjölbreytni og þátttöku allra. 

„Fullyrðingar hægrimanna um að reglulítill markaður greiði sjálfur úr öllum vandamálum og skili réttmætum gæðum til almennings dæma sig nú endanlega sjálfar,“ sagði Logi í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. 

Nú væru lausnir jafnaðarstefnunnar mikilvægastar í baráttunni við heimsfaraldurinn. 

Ábyrga leiðin felst í því að fjölga störfum hratt

„Með samtakamætti almennings getum við sigrast á þeim áskorunum sem blasa við. En til þess þarf pólitískan kjark og skýra framtíðarsýn.

Á næstu dögum mun Samfylkingin leggja fram heildstæða áætlun um hvernig Ísland getur brotist út úr atvinnuleysiskreppunni - til móts við grænni framtíð. Hún byggir á þremur stoðum: Vinnu – velferð – og grænni uppbyggingu.

Ábyrga leiðin út úr atvinnuleysiskreppunni felst í því að fjölga störfum hratt – bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera um allt land – efla velferð og reisa nýjar grænar stoðir, undir verðmætasköpun framtíðar,“ sagði Logi. 

Hann sagði nauðsynlegt að ráðast í miklu markvissari vinnumarkaðsaðgerðir, taka vel utan um atvinnuleitendur og gera fyrirtækjum kleift að ráða fleiri til starfa.

Þörf á raunverulegri grænni atvinnubyltingu

„Koma til móts við sveitarstjórnir landsins; verja mikilvæg störf en umfram allt vernda nærþjónustu fólks. Fjárfesta í heilbrigðisþjónustu og menntun. Hefja stórátak gegn undirmönnum almannaþjónustunnar, það mun borga sig margfallt.

Síðast en ekki síst þurfum við að stíga miklu fastar til jarðar í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Við núverandi aðstæður dugar nefnilega ekkert minna en raunveruleg græn atvinnubylting,“ sagði Logi. 

Hann sagði að það væri ódýrt að heyra Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra tala um „græna byltingu“ þegar hún lagði sama dag fram fjárlög og fjármálaáætlun sem gefa engin fyrirheit um slíkt.

Að mati Loga er rétta og ábyrga leiðin að ráðast strax í kraftmikla græna fjárfestingaráætlun, aðgerðir sem vinni gegn hamfarahlýnun en skapi um leið atvinnu og verðmætasköpun fyrir alla landsmenn.  Græn atvinnubylting væri rétta svarið við óvissunni og atvinnuleysinu sem hefði svo lamandi áhrif á samfélagið. 

Fyrsta skrefið er að skipta um kúrs og snúa skútunni frá hægri

„Lánakjör ríkisins eru hagstæð – og nú er tíminn til að fjárfesta myndarlega í hugviti, nýsköpun, þróun, umhverfisvænni atvinnustarfsemi og grænni matvælaframleiðslu; hraða orkuskiptum og stórefla almenningssamgöngur. Þetta þarf að gerast strax,“ sagði Logi sem kveðst sannfærður um að Íslendingar geti skapað betra og sterkara velferðarsamfélag á Íslandi.

„Við stöndum andspænis gríðarlega flóknum verkefnum sem verða ekki öll leyst á stuttum tíma. En fyrsta skrefið er að skipta um kúrs, snúa skútunni frá hægri og hrista af okkur gamaldags kreddur um það hvernig ríkisfjármál virka og hvernig verðmæti verða til.

Á tímum loftslagshamfara og heimsfaraldurs höfum við ekki efni á því að leyfa hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og fjármálastefnu hægrimanna að ráða för. Það er einfaldlega alltof mikið í húfi,“ sagði Logi á Alþingi í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert