Geri flugið meðvitað um hættu á gosi

Frá Grímsvötnum. Líkurnar á að þar fari að gjósa aukast …
Frá Grímsvötnum. Líkurnar á að þar fari að gjósa aukast sífellt. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Viðbúnaðarstig almannavarna eiga við um fólkið og samfélögin sem eru nærri en með viðbúnaðarstigum fyrir flug er markhópurinn flugsamfélagið, þ.e.a.s. flugfélögin, Isavia, og VAAC (Volcanic ash advisory centers). Með því að setja á gult viðbúnaðarstig fyrir flug erum við að láta fluggeirann formlega vita af þeirri stöðu sem er í Grímsvötnum,“ segir Sara Barsotti fagstjóri eldfjallavár hjá Veðurstofu Íslands. 

Tilefni samtals Söru og blaðamanns er hækkað viðbúnaðarstig fyrir flug vegna virkni í Grímsvötnum. Eins og áður hefur komið fram hefur virkni þar farið hægt vaxandi að undanförnu og nálgast nú þau gildi sem sáust fyr­ir eld­gosið árið 2011. 

„Með því að fylgjast með eldfjöllum getum við séð hvað er eðlilegt og hvað er mjög óvenjulegt. Þegar ástandið er verulega óvenjulegt hefjum við samtal við Almannavarnir og ákveðum hvort tilefni sé til að setja á viðvörunarstig fyrir fluggeirann,“ segir Sara. 

Líkurnar á gosi sífellt að aukast

Viðbúnaðarstig fyrir flug er alþjóðlegur mælikvarði sem er gerður til þess að láta flugsamfélagið vita af virkni eldfjalla og þeirri hættu sem kann að skapast. Einnig er tilgangurinn sá að flugfélög og aðrir undirbúi sig fyrir mögulegt eldgos. Flugvélum er þó ekki óheimilt að fljúga yfir Grímsvötn, viðbúnaðarstiginu er einungis komið á svo flugsamfélagið sé meðvitað um stöðuna. Kerfi þessara viðbúnaðarstiga er hannað af ICAO (International Civil Aviation Organization).

Á fundi vísindaráðs í september gerði Veðurstofan grein fyrir því að virknin í Grímsvötnum sé nánast sú sama og fyrir gosið árið 2011. 

„Þetta gefur auðvitað til kynna að líkurnar á því að eitthvað muni eiga sér stað séu sífellt að aukast,“ segir Sara. 

Hún bendir þó á að þrátt fyrir að gulu viðbúnaðarstigi hafi verið komið á fyrir fluggeirann þýði það ekki endilega að það muni gjósa í Grímsvötnum. Árið 2017 var t.a.m. gulu viðbúnaðarstigi fyrir flug komið á vegna óróleika í Öræfajökli. 

„Því var svo breytt aftur í grænt því virkni Öræfajökuls varð aftur eðlileg,“ segir Sara.

„Þetta er einfaldlega viðvörun sem gæti breyst ef virkni í Grímsvötnum breytist. Viðvöruninni er ætlað að gera fluggeirann meðvitaðan um virknina í Grímsvötnum.“

Spurð hvort mikið sé um flugumferð yfir Grímsvötnum Segir sara að mest sé um slíka umferð yfir Heklu en flugvélar sem fljúga þar yfir gætu orðið fyrir áhrifum af eldgosi í Grímsvötnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert