Hentar hálauna- og forréttindafólki vel

„Markmið fæðingar- og foreldraorlofsins skiptist opinberlega í tvennt, annars vegar …
„Markmið fæðingar- og foreldraorlofsins skiptist opinberlega í tvennt, annars vegar snýst það um velferð barnsins og hins vegar um kynjajafnrétti,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is. mbl.is/Styrmir Kári

Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof, verði frumvarp félags- og barnamálaráðherra eins og það stendur í samráðsgátt samþykkt, henta hálauna- og forréttindafólki vel. Þá munu þau gagnast ríkinu sem eins konar sparnaðaraðgerð, segir Kjartan Valgarðsson, framkvæmdastjóri Geðverndarfélags Íslands.

„Markmið fæðingar- og foreldraorlofsins skiptast opinberlega í tvennt, annars vegar snýst það um velferð barnsins og hins vegar um kynjajafnrétti,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is. „Við lítum þannig á að vegirðu þessi sjónarmið, þá skiptir velferð barnsins meira máli, að velferð, tilfinningalegt heilbrigði og tengslamyndun barnsins eigi að koma númer eitt, og jafnréttisbaráttan svo. Með þessu erum við ekki að segja að við höfum eitthvað á móti jafnréttisbaráttunni, en hún á ekki að koma niður á barninu.“

Samkvæmt frumvarpi að lögum um fæðingar- og foreldraorlof er fæðingarorlof lengt úr 9 mánuðum í 12, og ber foreldrum að skipta því jafnt á milli sín. Aðeins einn mánuður verður til framsals.

Kjartan Valgarðsson.
Kjartan Valgarðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Kjartan telur að best væri að foreldrar hefðu 18 mánaða fæðingarorlof sem þeir myndu skipuleggja sjálfir. „Við fögnum því að fæðingarorlofið sé lengt úr 9 mánuðum í 12, en við teljum reyndar að það eigi að vera 18 mánuðir, út frá þekkingu á því hvað fyrstu tvö árin í lífi hvers barns skipta ofboðslega miklu máli fyrir framtíð þess.“

„Við vitum alveg að það myndi lenda mest á mæðrunum, en við vitum líka að þá er barnið í góðri tengslamyndun við bæði móður og föður, sem er nú yfirleitt ekki alveg fjarverandi, alla vega ef við gefum okkur hefðbundna móður-föður fjölskyldu. Í næsta skrefi ætti að sannfæra feður um hvað það sé gott barninu að þeir taki fæðingarorlof líka, en það er fullt af rannsóknum til um gagnsemi þess fyrir barnið að báðir foreldrarnir séu með því,“ segir Kjartan.

Sparnaðaraðgerð hjá ríkinu

Hins vegar lifum við ekki í fullkomnu launa- og kynjajafnrétti, og þess vegna muni börnin þurfa að gjalda. „Ég gæti talið upp marga tugi ástæðna fyrir því að feður taka ekki sitt fæðingarorlof. Það eru efnahagsástæður, kjaraástæður, þeir viðurkenna ekki barnið, þeir dvelja erlendis, eru í fangelsi eða fíklar, þeir vilja ekki vera heima með barnið.“

„Þá fá börn einstæðra mæðra minna en önnur börn, þar sem þær hafa í mesta lagi möguleika á 7 mánuðum og þetta fer saman, láglaunakonur og einstæðar mæður, og mér finnst það með ólíkindum að stéttarfélögin, ASÍ og BSRB og BHM, þar sem konur eru í meirihluta í flestum þessum félögum, samþykki þetta,“ segir Kjartan.

Þá segi það bara á hvaða vegferð barnamálaráðherrann sé, að hann leiti ekki til stétta sem eru sérfróðar um tilfinningalíf barna, en í samráðshópi ráðherra um endurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof sátu fulltrúar fá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Vinnumálastofnun, auk fulltrúa frá ráðherra, fjármálaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu.

„Lögin gera ekki ráð fyrir því að einstæðar mæður fái 12 mánuði, og þar sem eru tveir foreldrar þá verður þetta erfiðara fyrir láglaunafólk,“ segir Kjartan.

„Ég held þetta muni gagnast ríkinu, einmitt af þessum ástæðum. Einstæðum mæðrum verður ekki borgað 12 mánaða orlof, heldur í mesta lagi 7, og vegna þess að við vitum hve stór hluti feðra tekur fullt orlof, og það er vitað hversu margir gera það ekki, þá lítur þetta líka út bara eins og sparnaðaraðgerð fyrir ríkið.“

„Þetta hentar mjög vel, og ég vil að það komi fram, hálauna- og forréttindafólki, sem getur mjög auðveldlega tekið allt orlofið, þótt karlinn lækki í launum, því hann á þá nóg af peningum fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert