Íslenskt skólakerfi hafi staðist álagsprófið

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra Framsóknarflokks, var tíðrætt um skólamál í umræðum um setningarræðu forsætisráðherra í kvöld. Hún segir að menntun sé undirstaða atvinnulífsins og segist finna að vilji barna til að stunda nám hafi aukist í heimsfaraldrinum frekar en minnkað. Víða erlendis hafi skólastarf laggst niður vegna kórónuveirunnar en hérlend skólayfirvöld hafi staðið þetta álagspróf með prýði.

„Ekkert í heiminum er fegurra en hamingjusöm börn.Börn sem njóta umhyggju og ástar, búa að sjálfstrausti og bjartsýni, börn sem vita beint eða óbeint að þeirra bíða tækifæri í góðu og fjölskylduvænu samfélagi.“

Svo hófst ræða Lilju í kvöld og sagði hún í kjölfarið að menntakerfið væri ómissandi hluti af þeirri hamingju sem börn eiga skilið að búa við. Hún segir að stærsta verkefni þingmanna á Alþingi sé að tryggja þennan rétt barna, að búa við hamingju og sterkt menntakerfi.

Ekki bara börn sem sæki nám

Lilja talaði einnig mikilvægi náms fyrir hina fullorðnu sem orðið hafa fyrir atvinnnumissi. Margir hafi snúið sér til náms í kjölfar þess að hafa miss vinnuna vegna kórónuveirufaraldursins. Hún fagnar auknum fjáraukningu til menntamála í fjárlögum fjármála- og efnahagsráðherra sem kynnt voru í morgun.

Sögur af bankastarfsmönnum sem snúa við blaðinu til að fara í listnám, eða flugmönnum sem fara í trésmíðanám eru innblástur fyrir alla sem standa frammi fyrir miklum áskorunum, eða einfaldlega langar að breyta til.

Fagnar auknum fjárveitingum

„Þau viðhorf til menntunar sem birtast í fjárlagafrumvarpinu eru fagnaðarefni. Aukin fjárfesting í menntun mun skila góðri ávöxtun, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið allt,“ sagði Lilja í ræðu sinni.

Hún fagnar einnig auknum fjárveitingum í þágu lista og menningar og segir að afrek íslensks listafólks erlendis skili sér ekki bara í vegsemd og virðingu fyrir land og þjóð heldur einnig í veraldlegum verðmætum.

„Og við skulum muna, að fólk sem fær óskarsverðlaun fyrir list sína ávinnur sér ekki bara virðingu, heldur fylgja því tækifæri fyrir land og þjóð. Beinhörð veraldleg verðmæti, sem við getum svo notað til að bæta samfélagið okkar og auka verðmætasköpun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert