„Mér fannst bara fróðlegt að heyra í honum af því að menn hafa miklar skoðanir á þessari sænsku leið en þegar maður ræðir við hann [Anders Tegnell] sér maður að hún er nú ekkert rosalega frábrugðin þeirri íslensku,“ segir þingkonan Sigríður Á. Andersen sem spjallaði við sóttvarnalækni Svía í gær. Spjallið varð ríflega 20 mínútna langt þar sem skimanir, fyrirkomulag á landamærum og bóluefni komu til tals. Hægt er að sjá það hér fyrir neðan en því var streymt beint á Facebook.
Helstu líkindin séu að reyna að halda skólastarfi gangandi eins og kostur er og áhersla sé lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir. Í því samhengi má nefna að samkvæmt Tegnell þá er tekist á við smit í skólum með þeim hætti að einungis bekkir sem smitin komu upp í séu sendir heim í viku eða tvær. Misjafnt virðist hvernig tekist er á við þetta hérlendis. Í Snælandsskóla var t.a.m. brugðið á það ráð að senda einungis þá árganga þar sem smitin komu upp heim á meðan allir nemendur MR eru í fjarkennslu út vikuna. „Ég veit ekki hvaða forsendur voru þar fyrir því að loka öllu og frá mínum bæjardyrum séð finnst mér þetta ekki koma til greina til lengri tíma,“ segir Sigríður.
Í samtali við mbl.is segir Sigríður að sér hafi þótt áhugavert að heyra afstöðu Tegnells til þeirra aðgerða sem Svíar hafa gripið til fram að þessu vegna Kórónuveirunnar. Í svari sínu segir Tegnell að hún hafi þróast með ástandinu og sé í sífelldri endurskoðun.
„Grunnstefnan þykir mér þó hafa virkað ásættanlega. Það sem hefur misfarist eins og að tryggja öryggi aldraðra hefur nú tekið miklum bótum. En í það heila hefur þetta gengið vel þó alltaf sé hægt að bæta hlutina,“ sagði Tegnell í svari sínu. Heilt yfir séu aðgerðir miðaðar við heildarsýn á heilbrigði þjóðarinnar, þar með talda geðheilsu. Heildræn áhrif á lýðheilsu hafa því ráðið för í viðbrögðum við faraldrinum frá upphafi og Tegnell leggur áherslu á að efnahagsleg sjónarmið hafi ekki vegið þungt í ákvarðanatökunni. Stjórnmálafólkið sé látið um slíkt.
Þá spurði Sigríður Tegnell út í fyrirkomulag á landamærum sem er eitt heitasta umræðuefnið þegar viðbrögð stjórnvalda hér á landi eru til umræðu. „Sögulega séð hefur lokun landamæra til lengri tíma ekki virkað í baráttu við sjúkdóma,“ sagði Tegnell. Áherslan Svía sé fyrst og fremst lögð á skýr skilaboð og góð samskipti við þá sem koma inn til landsins.
Á meðan enn er smit í samfélaginu sé það sem bætist við frá þeim sem komi inn til landsins einungis lítið brot af heildartölu smita. Sænski sóttvarnalæknirinn skaut á að um 5-10% greindra smita séu hjá fólki sem komi yfir landamærin. „Á meðan við getum gripið þau og komið í veg fyrir frekari smit af þeirra völdum teljum við að það sé árangursríkara en að loka landamærum,“ sagði Tegnell en Svíar taka þátt í lokunum á ytri landamærum Evrópusambandsins.
Um þetta hefur verið mikið deilt hérlendis þar sem takmarkanir á landamærum og reglur um tvöfalda skimun og fimm daga sóttkví við komuna til landsins hafa verið harðlega gagnrýndar. Ekki síst þegar afleiðingar á ferðaþjónustuna hafa verið öllum verið augljósar. Óhætt er að tala um hrun í greininni. „Hann er ennþá þessarar skoðunar og mér finnst það eitthvað til umhugsunar fyrir okkur sem erum með löggjafarvaldið,“ segir Sigríður.
En er hægt að bera saman landamæri Íslands og Svíþjóðar?
„Já, ég held nú að það muni aldrei koma til þess að við lokum landinu alveg og eins og fyrirkomulagið er núna þá munu alltaf koma einhver smit inn í landið. Markmiðið hefur heldur aldrei verið að hafa veirufrítt land en einhverra hluta vegna eru væntingar manna þannig. Það fer ekki saman hljóð og mynd og sóttvarnaryfirvöld verða að tala skýrar um það. Fólk upplifir það þannig að markmiðið sé þannig að landið eigi að vera veirufrítt. En sóttvarnaryfirvöld hafa aldrei sagt að það sé raunhæft,“ segir Sigríður og nefnir Nýja Sjáland sem dæmi en þar var landamærum lokað alveg en þrátt fyrir það komu þar upp smit að nýju.
Sigríður segir að þessi áhersla á lokanir landamæra og samkomustaða ásamt skimunum sé mögulega að taka dýrmæta orku og ekki síður fé sem myndi nýtast betur á öðrum vígstöðum í baráttu við faraldurinn. „Frekar sé höfðað til skynsemi fólks og ábyrgðar hvers og eins. Það er mjög auðvelt að koma upplýsingum og leiðbeiningum til fólks og ég held að það séu tækifæri til að vinna meira með það en svona valdbeitingu,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.
Í viðtalinu spyr Sigríður Tegnell út í það hvernig hann sér fyrir upplýsingagjöf í tengslum við faraldurinn. Við á Íslandi þekkjum það vel að fylgjast vel með nýjustu tölum um veikindi, spítalainnlagnir, smitaða í sóttkví og þar fram eftir götunum. Tölurnar berast kl. 11 fyrir hádegi líklega er ekki til sá matartími í fyrirtækjum landsins þar sem nýjustu tölur ber ekki góma. Hvað eru margir veikir, í öndunarvél og þar fram eftir götunum. Svipað fyrirkomulag er í Svíþjóð. Sigríður veltir því upp hvort tími sé kominn til að endurhugsa þetta?
Tegnell svarar því til að þetta sé vissulega til skoðunar hjá sér og samstarfólki sínu. Líklega verði skipt yfir í fyrirkomulag á næstunni þar sem tölur um veikindi verði birt vikulega. Þetta segir Sigríður vera eitthvað sem mætti vel taka til skoðunar hér á landi. „Menn halda þetta ekkert út í heilt ár. Að birta daglegar tölur yfir þá sem eru að veikjast og hversu margir eru að leggjast inn á spítala af þessum tiltekna eina sjúkdómi. Til að setja þetta í samhengi væri eðlilegt að spyrja hvort fólk myndi vilja sjá tölur um hversu margir eru að greinast með krabbamein á Íslandi á hverjum einasta degi.“