Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór samtals í 141 sjúkraflutning á dag- og næturvaktinni í gær. Í Facebook-færslu slökkviliðsins kemur fram að mögulega sé um met að ræða. 25 af þessum sjúkraflutningum voru forgangsverkefni og 18 vegna COVID-19. Einnig var slökkviliðið kallað út í átta útköll.
106 af sjúkraflutningunum voru á dagvaktinni og 35 á næturvaktinni.
„Hvað veldur þessum fjölda er erfitt að segja en kannski er þetta spenningur fyrir nýju gulu sjúkrabílunum sem við erum að taka í notkun, næstu daga bætast sjö nýir bílar í flotann hjá okkur“, segir í færslu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.