„Ræðan mín er ónýt“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra Framsóknar, segir að stærsti þátturinn í því að milda högg yfirvofandi efnahagslægðar sé að standa vörð um atvinnu. Hann segir að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar undanfarið hafi verið í þágu þess að standa vörð um lifibrauð fólks.

Eftir ræðu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, sagði Sigurður að ræða sín væri „ónýt.“ Hann sagði að fyrri ræðumenn hefðu ýmist sagt að stefna ríkisstjórnarinnar væri stefna Vinstri grænna eða stefna Sjálfstæðisflokks. Sigurður hóf því ræðu sína á því að árétta að stefna ríkisstjórnarinnar væri stefna Framsóknarflokksins.

Sigurður segir að með verkefnum í samgöngumálum megi skapa um 8.700 störf á næstunni og að það hafi verið stórt skref að tryggja að lífskjarasamningum yrði ekki sagt upp.

„Atvinna, atvinna, atvinna.“

„Við stöndum vörð um störf og sköpum ný störf. Atvinna, atvinna, atvinna,“ sagði Sigurður í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.

„Um það snýst vinna okkar á Alþingi og í ríkisstjórn- síðustu mánuði - næstu vikur, næstu mánuði: Að standa vörð um störf og skapa ný störf. Atvinna, atvinna, atvinna.“

Samgönguverkefni muni skapa 8.700 störf

Sigurður Ingi fagnaði þeim árangri sem náðst hefur í samgöngumálum á Vestfjörðum.

Og í dag er gleðidagur – eftir margra ára baráttu fyrir bættum samgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum hefur sá dómur verið kveðinn upp að framkvæmdir geta loks hafist í gegnum Teigsskóg. Áfram veginn um Teigskóg.

Hann segir jafnframt að áframhaldandi verkefni í samgöngumálum muni tryggja um 8.700 störf á næstu árum og segir hann að megi fullyrða að verkefni á samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu 15 ára og aðrar nýframkvæmdir muni vega á móti samdrætti næstu ára.

Ríkisstjórnin „breið í eðli sínu.“

Sigurður segir ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna vera breiða í eðli sínu og að hún ednurspegli skoðanir þjóðarinnar. Hún hafi verið einbeitt í að horfa á sameingilega hagsmuni þjóðarinnar og sé því á réttum stað á réttum tíma.

Stærsta hagsmunamálið hefur verið að tryggja frið á vinnumarkaði. Það var mikilvægt þegar var skrifað undir lífskjarasamningana og það var stórt skref að ná að tryggja að samningarnir héldu.

Við megum ekki við því nú að láta ófriðinn ná yfirhöndinni því verkefnin eru stór og þau snúast um að komast í gegnum þennan vetur með það að markmiði að vernda störf og skapa störf.

„Atvinna, atvinna, atvinna.“

Sigurður segir að við þjóðin sé stödd í miðju stríði við kórónuveirunna og að helsta andsvar okkar við þeim áskorunum sem þjóðin mun mæta vera atvinnusköpun.

„Sameinumst um að vernda störf og skapa störf því verkefnið er brýnt og verkefnið er ljóst: atvinna, atvinna, atvinna,“ sagði Sigurður áður en hann lauk ræðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert