„Ríkissjóði verður beitt af fullum þunga til að skapa viðspyrnu fyrir almenning og atvinnulíf í landinu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld. Hún tók fram, að þó að faraldurinn hefði reynst landsmönnum erfiður þá væri bjart framundan. Í íslensku samfélagi, sem sé sterkt samfélag, búi kynngikraftur „og með þeim krafti munum við spyrna okkur sterklega frá botni.“
Katrín hóf ræðuna á að því að minnast á það að árið 2020 verði tæpast talið viðburðalítið í Íslandssögunni. Hún vísaði til orða franska rithöfundarins og heimspekingsins, Albert Camus, sem orðaði það svo í bók sinni Plágunni:
„Drepsóttir og styrjaldir koma fólkinu ávallt jafnmikið á óvart. … Plágan fer út fyrir ímyndun mannsins, menn segja því að hún sé óraunveruleg, vondur draumur sem líði hjá. En hún líður ekki ævinlega hjá.“
Katrín segir að gangan framundan ætli að verða löng og ekki sjái alveg fyrir endann á henni. Nú reyni á seigluna enda fátt annað í stöðunni en að einbeita sér að því að ljúka þessu verkefni slysalaust.
„Eitt vitum við þó, þessu lýkur, og ég veit að okkur mun takast að færa líf okkar í betra horf,“ sagði Katrín og bætti við að það væru forréttindi að tilheyra samfélagi þar sem leiðarstefið hefði verið að treysta hvert öðru og standa saman.
Hún sagði að framundan væri tími endurreisnar þar sem stjórnvöld munu efla opinbera fjárfestingu, verja velferð og beita til þess krafti ríkisfjármálanna. Þjóðin hafi notið þess að hafa búið í haginn; staða þjóðarbúsins væri sterk, skuldir hefðu verið greiddar niður og Seðlabankinn ráði yfir öflugum gjaldeyrisvaraforða. Peningastefnan hefði skilað lægstu vöxtum lýðveldissögunnar.
Hún vék einnig orðum að því, þegar stjórnvöld kynntu fyrr í vikunni aðgerðir til að greiða fyrir sátt á vinnumarkaði. Þar færu saman aðgerðir sem öllum væri ætlað að auka umsvif, fjölga störfum og stuðla að grænni umbreytingu og aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.
„Það er ánægjulegt að aðilar vinnumarkaðarins sýndu þá ábyrgð að segja ekki upp samningum og halda friðinn á vinnumarkaði. Þar með getum við samhent snúið okkur að stóru áskoruninni sem er að skapa störf og tryggja að atvinnuleysi verði ekki langvarandi böl í samfélagi okkar. Þó að sjaldan hafi umræða verið jafn mikil um vinnumarkaðsmál og á undanförnum misserum hefur samtal stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda reynst farsælt og þannig hafa mikilvægir áfangar náðst á undanförnum árum við að byggja stoðir undir öfluga samvinnu um þessi mikilvægu mál.“
Forsætisráðherra sagði einnig, að fjármálaáætlunin sem dreift var í dag sýndi staðfastan vilja stjórnvalda til að verja þann árangur sem náðst hefði í uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfis og nýja sókn í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Í fjárfestingaátaki stjórnvalda væru fjölbreyttar fjárfestingar; samgöngumannvirki, byggingar, þekkingargreinar, skapandi greinar og grænar fjárfestingar.
„Ríkissjóði verður beitt af fullum þunga til að skapa viðspyrnu fyrir almenning og atvinnulíf í landinu,“ sagði Katrín og bætti við það þetta yrði græn viðspyrna.
Hún tók m.a. fram að menn ættu að nýta þau færi sem faraldurinn hefði skapað til að hraða tæknibreytingum og grænni byltingu. Um leið efli menn velsæld, heilbrigðisþjónustu og alla þá samfélagslegu innviði sem hafa sannað styrk sinn í þessum hamförum.
Katrín fór um víðan völl í ræðu sinni og vék m.a. að loftslagsmálum, orkuskiptum í samgöngum og náttúruvernd, en hún sagði m.a. miðhálendisþjóðgarður, sem hún vonast til að Alþingi afgreiði í vetur, yrði stórkostlegt framlag til náttúruverndar á heimsvísu.
Hún sagði, að til að auka jöfnuð hér á landi þá hefðu stjórnvöld eflt félagslega húsnæðiskerfið og aukið möguleika tekjulægri hópa á að eignast húsnæði.
„Í vetur munum við takast á við að bæta réttarstöðu leigjenda og draga úr vægi verðtryggingar í húsnæðislánakerfinu. Við höfum dregið úr kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og eflt þjónustuna, ekki síst á sviði geðheilbrigðismála. Við höfum stóreflt heilsugæsluna um allt land og hafið byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Alþingi samþykkti sérstakar ráðstafanir til að koma til móts við tekjulægri hópa aldraðra og við drógum úr skerðingum á greiðslum til örorkulífeyrisþega.“
Katrín sagði að Alþingi fengi tækifæri þennan vetur til að takast á við ákvæði í stjórnarskrá um að auðlindir sem ekki væru háðar einkaeignarrétti yrðu þjóðareign.
„Um þetta hefur verið deilt allt frá því snemma á sjöunda áratug 20. aldar. Þingmenn úr ólíkum flokkum hafa gert þetta mál að sínu. Og nú fær Alþingi tækifæri til að stíga skrefið og setja slíkt ákvæði, skýrt og knappt, inn í stjórnarskrá til að tryggja réttlæti til framtíðar.“
Katrín vonar að þingið standist prófið, að breyta stjórnarskránni með almannahagsmuni að leiðarljósi, og að málið festist ekki í hjólförum liðinna ára og áratuga.
„Nú eru kosningar framundan á næsta ári og lesa má kunnuglega spádóma um að allt muni nú leysast upp í karp um keisarans skegg. Allt verði hér undirlagt í hefðbundnum átökum um völd undir neikvæðustu formerkjum stjórnmálaátaka. En við skulum ekki gleyma því að á bak við átökin og skoðanaskiptin eru ólíkar stefnur og hugmyndir. Þessar ólíku hugmyndir geta styrkt hver aðra eða kveikt nýjar. Hugmyndirnar eru það sem gerir samfélagið okkar að því sem það er. Á bak við átökin eru manneskjur með sannfæringu og hugsjónir sem hver og ein vill vinna að betra samfélagi. Og ég trúi því að okkur muni áfram lánast að vinna að því að gera samfélagið betra fyrir hvern og einn.
Þó að faraldurinn hafi reynst erfiður þá er bjart framundan. Við erum ýmsu vön hér á hjara veraldar. Við þekkjum það úr sögunni að í íslensku samfélagi býr kynngikraftur og með þeim krafti munum við spyrna okkur sterklega frá botni,“ sagði Katrín í lok ræðu sinnar á Alþingi í kvöld.