Tæpir átta milljarðar í trúmál

Hallgrímskirkja er ein þekktasta kirkja Íslendinga.
Hallgrímskirkja er ein þekktasta kirkja Íslendinga. mbl.is/Hjörtur

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021 gerir ráð fyrir auknum útgjöldum til trúmála en útgjöldin eru áætluð 7.868 milljónir króna. Þannig hækkar framlag úr ríkissjóði til trúmála um 183,2 milljónir króna frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 252,1 milljónum króna.

Undir trúmál falla útgjöld til starfsemi þjóðkirkjunnar og kirkjugarða. Þá fellur einnig undir trúmál úthlutun sóknargjalda til skráðra lífsskoðunar- og trúfélaga.

Í fjármálaáætlun áranna 2021 - 2025 er fjallað um helstu áskoranir og tækifæri til umbóta á sviði trúmála. Þar segir að á undanförnum árum hafi skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum og meðlimum þeirra fjölgað talsvert en meðlimum í Þjóðkirkjunni að sama skapi fækkað. Samningur sem miðar að því að auka fjárhagslegt sjálfstæði Þjóðkirkjunnar umtalsvert var undirritaður í september á síðasta ári. Áform eru uppi um að auka þetta sjálfstæði enn meira. 

Þrátt fyrir markmið um fjárhagslegt sjálfstæði Þjóðkirkjunnar aukast útgjöld til trúmála á milli ára, miðað við fjárlagafrumvarpið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert