Tekjuskattur á lægstu laun lækkar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp ársins 2021 í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp ársins 2021 í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tekjuskattur á laun upp að u.þ.b. 325.000 krónum lækkar á næsta ári úr 35,04% niður í 31,44%. Hefur hann þá lækkað um 5,5 prósentustig á tveimur árum, líkt og boðað var þegar fjárlagafrumvarp var kynnt í fyrra.

Á móti hækkar miðþrep tekjuskattkerfisins, sem nær til tekna milli 350.000 og u.þ.b. 900.000 króna, úr 37,19% í 37,94%. Efsta þrep helst óbreytt, 46,24%. Þá lækkar persónuafsláttur á mánuði í 51.265 krón­ur en hann er nú 54.628 krónur.

Breytingarnar verða til þess að lækka skattbyrði allra, en mest þeirra sem hafa tekjur um 325.000 krónur. Eftir því sem laun hækka fjarar undan skattalækkuninni, enda vegur hækkun miðþrepsins upp á móti lækkun lægsta þreps.

Breytingin hefur þegar verið lögfest og er því í raun ekki hluti fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun. Í kynningu Bjarna kom fram að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti drægjust saman um 14,5 milljarða króna á næsta ári vegna breytinganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert