Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segir að stærsta spurningin sem þingið eigi að spyrja sig að næsta árið sé spurning sem hún hafi spurt sig sífellt oftar á kjörtímabilinu. „Hvert viljum við stefna?“
Hún segir að oft hafi henni þótt vanta vanta í umræður í sal Alþingis hvernig þingið eigi að grípa tækifæri framtíðarinnar og búa sig undir áskoranir hennar í stað þess að hlusta á ríkisstjórnina tala um hvernig halda skuli sem fastast í fortíðina.
„Ástæðan fyrir því að flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina vilja frekar ræða fortíðina en framtíðina, er einföld. Þau skilja ekki framtíðina.
Það er hins vegar ekki í boði lengur að flýja þessa umræðu. Hamfarir eins og Covid-faraldurinn krefjast þess að við hugsum fram á veginn og að við völd sé fólk sem skilur mikilvægi þess að taka þátt í mótun framtíðarinnar en fljóta ekki eins og dauðir fiskar í straumi framfara,“ sagði Halldóra í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.
Hún segir að Píratar hafi skýra sýn á hvaða breytingar séu nauðsynlegar til að bregðast við áskorunum framtíðar - ekki bara vegna Covid-19 heldur líka til að undirbúa þjóðfélagið fyrir tækniframfarir sem muni hafa gríðarleg áhrif á alla, líka þau sem berjast hvað mest gegn þeim.
Halldóra segir að þingið þurfi að alvöru að fara huga að ræða lausnir eins og borgaralaun, sem séu ekki bara svarið við óstöðugu efnahagsástandi og vélvæðingu starfa. Þau séu efnahagslegt loforð stjórnvalda um að öllum skuli tryggð afkoma til að vaxa og dafna á eigin forsendum.
„Við skiljum einnig að áskoranir í loftslagsmálum krefjast metnaðarfullra aðgerða og hugrekkis til að framkvæma þær og fjármagna að fullu. Til að Ísland geti orðið fyrirmynd annarra þjóða þarf brýnar aðgerðir langt umfram áform núverandi ríkisstjórnar, enda neitar hún að viðurkenna rót vandans. Hagkerfi sem hyglir græðgi stórfyrirtækja umfram samfélagslega ábyrgð. Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni fyrirtækja verða aldrei leiðarstef án þess að umhverfis- og samfélagsskaði þeirra verði metin til fjár. Ef þú mengar þá borgarðu.
Ný hagræn hugsun og sjálfbærnihvatar í stað fortíðarþrár mengandi stórfyrirtækja er lykillinn að því að koma hér á alvöru velsældarhagkerfið,“ sagði Halldóra í ræðu sinni.
Hún sagði ennfremur, að valdhafar þyrftu að sæta ábyrgð, að styrkja þyrfti rétt einstaklinga gegn valdbeitingu stjórnvalda og auka aðkomu fólks að ákvarðanatöku. Án slíks aðhalds væri leiðin greið „fyrir alls konar litla einræðisherra í búningi sterkra leiðtoga, eins og sjá má víða. Þess vegna berjumst við fyrir nýrri stjórnarskrá. Hún er réttlætismál, lýðræðismál, öryggismál, umhverfismál og framtíðarmál.“
Halldóra segir að ríkisstjórnin virðist ekki skilja að hún sitji í umboði fólksins í landinu.
„Þegar ríkisstjórnin stóð frammi fyrir sinni fyrstu raunverulegu áskorun - að bregðast við efnahagslegum afleiðingum faraldursins - var leitað til peningaaflanna í landinu.
Helstu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar voru ýmist fulltrúar stórfyrirtækja eða fulltrúar samtaka stórfyrirtækja. Lobbíistar sem geta með dags fyrirvara pantað blaðamannafund við ráðherrabústaðinn og 25 milljarða úr ríkissjóði,“ sagði Halldóra.
Hún sagði í lok ræðu sinnar, að hugmyndafræði Pírata hafi alltaf grundvallast á því að valdið eigi heima hjá almenningi. „Farsæld til framtíðar snýst um einstaklinga og aðkomu þeirra að mótun samfélagsins, ekki bara stórbokka í Borgartúni.“