Starfsmenn utanríkisráðuneytisins vörðu 130 klukkustundum, eða á fjórðu vinnuviku, í að svara einni fyrirspurn frá alþingismanni.
Þetta kemur fram í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við fyrirspurn frá Brynjari Níelssyni um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum.
Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið veitti Morgunblaðinu fór svona mikill tími í að svara fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um orkupakka ESB, eftirlitsstofnanir sambandsins og EES-samninginn. Fyrirspurnina lagði hann fram á 149. löggjafarþingi 2018-2019.
Í utanríkisráðuneytinu hefur verið haldið að nokkru leyti utan um áætlaðar vinnustundir við svörun fyrirspurna þingmanna frá árinu 2017 og gefi það innsýn í þá vinnu sem almennt fer í að svara fyrirspurnum á ársgrundvelli. Á árinu 2017 var varið alls um 55 klukkustundum til þessara verkefna og á árinu 2018 alls um 58 klukkustundum. Alls var 218 klukkustundum varið til vinnslu svara við fyrirspurnum til skriflegs svars á 149. löggjafarþingi. Loks hefur alls 121 klukkustund farið í að svara fyrirspurnum þingmanna sem beint hefur verið til ráðuneytisins á yfirstandandi löggjafarþingi.
Þrjár vinnustundir fóru í að taka saman svar við fyrirspurn Brynjars, upplýsir ráðuneytið. sisi@mbl.is