Stjórnvöldum þykir ljóst að kórónuveirufaraldurinn og eftirmál hans muni hafa mikil áhrif á líf og lífsviðurværi Íslendinga næstu árin, að því er fram kemur í fjármálaáætlun frá áranna 2021-2025. Þar er rætt um nýjan veruleika sem mikilvægt sé að aðgerðir stjórnvalda séu aðlagaðar að.
En faraldurinn er ekki eini óvissuþátturinn sem Íslendingar, og fleiri þjóðir, standa frammi fyrir í efnahagsmálum. Óvissuþættirnir sem nefndir eru í áætluninni eru „þróun alþjóðaviðskipta og orkuverðs auk áhrifa af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Til lítillega lengri tíma munu tæknibreytingar og geta hagkerfisins til þess að takast á við þær og loftslagsbreytingar vafalítið hafa mikil áhrif á þróun efnahagsmála.“
Kostnaður vegna loftslagsbreytinga getur orðið verulegur og eykst kostnaður vegna aðgerða og aðgerðaleysis eftir því sem tíminn líður, að því er fram kemu í fyrrnefndri áætlun.
„Kostnaðurinn er þó mikilli óvissu háður enda geta áhrifin verið ófyrirséð, gerst snögglega og haft keðjuverkandi áhrif. Efnahagslegir hvatar og reglusetning á tímabili fjármálaætlunar geta þó haft mikið að segja um þessi langtímaáhrif.“
Í fjármálaáætluninni kemur fram að viðbrögð ríkisfjármálastefnunnar séu um margt ólík því sem almennt var ráðlagt í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.
„Á þeim tíma var gjarnan lögð áhersla á að með því að vinna bug á hallarekstri ríkissjóðs og stöðva þannig eða snúa við skuldasöfnun væri unnt að auka tiltrú markaða á hagkerfinu og stuðla að vexti efnahagsumsvifa. Var gjarnan vísað í rannsóknir sem sýndu að háar ríkisskuldir kæmu niður á hagvexti og að skilvirkasta leiðin til að koma hjólum efnahagslífsins í gang væri að skera niður útgjöld fremur en að hækka skatta.“
Síðar leiddu rannsóknir í ljós að aðrar leiðir væru vænlegri.
„Síðar sýndu rannsóknir, m.a. rannsóknir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að svokallaðir ríkisfjármálamargfaldarar, sem lýsa sambandi ríkisfjármála og hagvaxtar, væru mun hærri en áður var talið þegar hagkerfi ganga í gegnum efnahagskreppur. Þannig kom í ljós að aðhald í opinberum fjármálum á botni fjármálakrísunnar og síðar evrukrísunnar hafði neikvæð fremur en jákvæð áhrif á hagvöxt. Opinber stuðningur við hagkerfi í árdaga krísanna hafði sérstaklega jákvæð áhrif á efnahag.“