Laun starfsfólks hjá Sorpu hækka

Sólveig Anna Jónsdóttir undirritar samning fyrir hönd Eflingar við Sorpu.
Sólveig Anna Jónsdóttir undirritar samning fyrir hönd Eflingar við Sorpu.

 Í gær undirrituðu samninganefndir Sorpu og Eflingar nýjan kjarasamning. Hefur samningurinn það í för með sér að starfsfólk Sorpu hækkar í launum umfram það sem samið var um á almennum markaði að því er fram kemur í tilkynningu. 

Samningurinn fylgir í meginatriðum kjarasamningi Eflingar við Reykjavíkurborg og er gildistími hans frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023.

Sérstök krónutöluhækkun lægstu launa 

Í tilkynningu segir að laun Eflingarfélaga hjá SORPU muni hækka um 100-113 þúsund krónur á samningstímanum ef miðað er við fullt starf. „Hækkunum umfram 90 þúsund króna taxtahækkun að fyrirmynd almenna vinnumarkaðarins er náð fram með innleiðingu nýrrar launatöflu líkt og hjá Reykjavíkurborg. Er það í samræmi við hugmyndafræði gildandi kjarasamninga um sérstakar krónutöluhækkanir lægstu launa,“ segir í tilkynningu. 

 Þá segir að í samningnum eru ákvæði um styttingu vinnuvikunnar bæði hjá dagvinnu- og vaktavinnufólki, að hluta háð nánari útfærslu í samráði við starfsfólk líkt og í öðrum kjarasamningum við ríki og sveitarfélög.

Eins að gerðar veri afturvirkar leiðréttingar á launum vegna hækkana 1. apríl 2019 og 1. apríl 2020 að frádreginni innágreiðslu sem greidd var meðan á kjaraviðræðum stóð.

 Fleiri samningar á leiðinni 

Einnig segir í tilkynningu að samningurinn verði nú borinn undir atkvæði félagsmanna og ber Eflingu að tilkynna niðurstöðu fyrir 23. október næstkomandi. Tekur samningurinn gildi nema félagsmenn felli hann í atkvæðagreiðslu. Fer nú í hönd vinna við að kynna samninginn fyrir félagsmönnum sem starfa munu undir honum en þeir eru um 70 talsins.

„Samningurinn er einn af fjölmörgum kjarasamningum sem Efling gerir við launagreiðendur sem heyra ekki beint undir stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga en eru fjármagnaðir af almannafé. Slíkir samningar eru gerðir á grundvelli samninga Eflingar við ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin og yfirleitt undirritaðir fljótlega í kjölfar þeirra.“

Eðlilegur samningsvilji

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í tilefni af undirritun samningsins: „Ég fagna því innilega að búið sé að undirrita þennan kjarasamning. Með eðlilegum samningsvilja ná aðilar saman þótt það kunni að taka tíma.“

Uppfært: Upphaflega var sagt í fréttinni að sorphirðufólk myndi hækka í launum. Hið rétta er að starfsfólk Sorpu mun hækka í launum en sorphirðufólk er ekki á vegum Sorpu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert