Sex mánaða dómur vegna rútuslyss

Slysið varð í desember árið 2017.
Slysið varð í desember árið 2017. Ljósmynd/Landsbjörg

Karlmaður á sjötugsaldri var í dag í Landsrétti sakfelldur fyrir að hafa valdið því að tveir ferðamenn létust og tveir aðrir hlutu alvarleg líkamsmeiðsl í umferðaslysi á Suður­lands­vegi vest­an Hunku­bakka í des­em­ber 2017. Er maðurinn sagður hafa keyrt of hratt miðað við aðstæður og of nálægt fólksbifreið sem fyrir framan var, en rútunni var ekið á afturhorn fólksbifreiðarinnar og lenti í kjölfarið utan vegar og valt.

Maðurinn var bílstjóri rútu sem í voru 44 kínverskir ferðamenn. Lést einn farþeginn á staðnum, en annar síðar. Tólf voru fluttir alvarlega slasaðir á Landspítalann vegna slysins.

Í dómi Landsréttar, sem staðfestir dóm héraðsdóms, kemur fram að skoðun ökurita sýni að hraði bifreiðarinnar síðustu mínúturnar fyrir slysið hafi verið á bilinu 100 til 102 km/klst. Þó segir matsmaður að hraðinn hafi verið 92 km/klst með 9 km/klst vikmörkum. Þá hafi hraðinn verið kominn niður í 44 km/klst þegar rútan valt.

Staðfest var að hemlar rútunnar voru í ólagi og rútan því leitað til hægri þegar hemlað var. Var því tilgáta að rútan hafi leitað til hægri á bifreiðina sem fyrir framan var þegar henni var hemlað.

Slysið varð vestan af Kirkjubæjarklaustri
Slysið varð vestan af Kirkjubæjarklaustri Kort/mbl.is

Í framburði ökumannsins hjá lögreglu kom fram að hann hafi orðið var við bifreið, sem var lagt í hægri vegkanti, og vinstra megin hafi tvær stúlkur verið að ganga að bifreiðinni. Hann hafi fært rútuna á vinstri vegarhelming til að passa að keyra ekki á stúlkurnar og hemlað. Hann hafi fundið að hemlarnir tóku mismikið á, en misst rútuna út fyrir malbikið og svo hafi hún snúist.

Kínverskur fararstjóri hópsins, sem sat í framsæti rútunnar, sagði í skýrslutöku að rútunni hefði verið ekið á eðlilegum hraða á eftir fólksbíl, með tveggja bíllengda millibili. Fólksbíllinn hafi svo skyndilega hægt á sér og rútubílstjórinn reynt að fara fram úr með þeim afleiðingum að missa stjórn á rútnni og velta. Fyrir dómi sagði fararstjórinn að rútunni hefði verið ekið hratt og að fólksbíllinn hafi birst skyndilega hægra megin, þar sem bifreiðinni hafa verið ekið hægt.

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur féllst ekki á að mismunandi framburður fararstjórans og að skýrslutaka fyrir dómi í gegnum síma hefði þau áhrif að ómerkja héraðsdóminn. Á ökumanninum hvíli skyldur að gæta varúðar við akstur og að ökutækið sé í góðu ástandi. Segir í dómi Landsréttar að ökumaðurinn hafi ekið rútunni eftir hálum vegi er hann nálgaðist fjölfarinn áningarstað. Þá hafi hann orðið var við að hemlabúnaði bifreiðarinnar væri ábótavant.

mbl.isSegir í dóminum að miðað við gögn málsins og matsgerð dómkvadds matsmanns sé framburður mannsins ótrúverðugur um ökuhraða rútunnar og ökulag fólksbifreiðarinnar. „Er sýnt að ákærði ók bifreiðinni of hratt miðað við aðstæður og gætti þess ekki að hafa nægilegt bil á milli hennar og fólksbifreiðarinnar sem fram undan var með þeim afleiðingum að slys varð sem leiddi tvo farþega í hópferðabifreiðinni til dauða og olli alvarlegum líkamsmeiðslum tveggja annarra.“

Maðurinn hlaut sex mánaða dóm auk þess að vera gert að greiða allan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka