Ný langtíma orkustefna Íslands til ársins 2050 var kynnt af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í dag. Yfirskrift orkustefnunnar er „Orkustefna til ársins 2050: Sjálfbær orkuframtíð“ og segir ráðherra að með þessu sé gætt hagsmuna núverandi og komandi kynslóða.
Stefnan var unnin af fulltrúum frá öllum flokkum á Alþingi, fjórum fulltrúum ráðuneyta og í samráði við hagsmunaaðila.
Sett eru fram 12 meginmarkmið í orkustefnunni og eru þau eftirfarandi:
- Orkuþörf samfélags er ávallt uppfyllt
- Innviðir eru traustir og áfallaþolnir
- Orkukerfið er fjölbreyttara
- Ísland er óháð jarðefnaeldsneyti; orkuskipti eru á landi, á hafi og í lofti
- Orkunýtni er bætt og sóun lágmörkuð
- Auðlindastraumar eru fjölnýttir
- Gætt er að náttúruvernd við orkunýtingu
- Umhverfisáhrif eru lágmörkuð
- Nýting orkuauðlinda er sjálfbær
- Þjóðin nýtur ávinnings af orkuauðlindunum
- Orkumarkaður er virkur og samkeppnishæfur
- Jafnt aðgengi að orku er um allt landið
„Þegar við skoðum meginmarkmiðin tólf sjáum við að við eigum mörg óunnin verkefni. Þar liggja gríðarleg sóknarfæri,“ er haft eftir Þórdísi í tilkynningu frá ráðuneytinu, en hún segir næstu skref vera að setja fram árangursvísa og aðgerðir sem byggja á markmiðum stefnunnar.
Stefnt er að sjálfbærri orkuframtíð í orkustefnu fyrir Ísland til 2050.
Í starfshópnum sátu:
- Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, formaður, skipuð af ráðherra
- Páll Jensson, varaformaður, skipaður af ráðherra
- Halla Signý Kristjánsdóttir, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokksins
- Albertína F. Elíasdóttir, tilnefnd af þingflokki Samfylkingarinnar
- Árni V. Friðriksson, tilnefndur af þingflokki Miðflokksins
- Kristín Vala Ragnarsdóttir, tilnefnd af þingflokki Pírata
- Kolbeinn Óttarsson Proppé, tilnefndur af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs
- Njáll Trausti Friðbertsson, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins
- Þorsteinn Víglundsson, tilnefndur af þingflokki Viðreisnar
- Ólafur Ísleifsson, tilnefndur af Flokki fólksins (Guðmundur Borgþórsson var tilnefndur í hans stað en starfaði ekki með hópnum)
- Magnús Júlíusson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu
- Harpa Þórunn Pétursdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
- Brynhildur Davíðsdóttir, tilnefnd af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
- Ólafur Kr. Hjörleifsson, tilnefndur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
Erla Sigríður Gestsdóttir, starfsmaður starfshópsins, var tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Kristinn Hjálmarsson ráðgjafi starfaði einnig með hópnum.