Telja framkvæmdir hafa borið árangur

Fossvogsskóla var lokað tímabundið síðasta vetur vegna raka og myglu.
Fossvogsskóla var lokað tímabundið síðasta vetur vegna raka og myglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náttúrufræðistofnun Íslands telur líklegt að umfangsmiklar framkvæmdir á liðnum misserum til að uppræta leka- og rakavandamál í Fossvogsskóla hafi borið árangur, m.a. með því að fjarlægja skemmt byggingarefni. Þetta kemur fram í bréfi sem skólastjóri Fossvogsskóla hefur sent foreldrum barna við skólann.

2 tegundir myglusvepps fundust 

„Athugun Náttúrufræðistofnunar á fjórum snertisýnum úr skólanum sýndi að eftir ræktun var þar meðal annarra að finna tvær tegundir myglusveppa sem teljast varasamar innanhúss. Hins vegar fundust engar örverur í kjarnasýnum sem tekin voru á sömu stöðum. Þar sem báðar tegundir höfðu vaxið upp í sambærilegum sýnum, teknum áður en lagfæringar hófust í fyrravor, gæti verið um mengun af gróum frá þeim tíma að ræða.
Í ljósi álits Náttúrufræðistofnunar verða fyrstu viðbrögð þau að skólahúsnæðið verður þrifið vandlega vikulega til viðbótar við dagleg þrif til að draga úr rykmagni og þar með örverum í því.

Aftur verða tekin sýni að mánuði liðnum sem send verða til tegundagreiningar hjá Náttúrufræðistofnun. Vakni grunur um raka eða leka í skólanum eða að enn séu skemmdir í byggingarefni verður brugðist við því með viðeigandi hætti.

Í framhaldinu verður lögð áhersla á vandleg þrif, góða loftræstingu og að hæfilegt raka- og hitastig sé í skólahúsnæðinu. Á meðan á aðgerðum stendur verða gerðar ráðstafanir til að bæta líðan barna, sem sérstakar áhyggjur eru af, í samstarfi við foreldra þeirra.
Reykjavíkurborg leggur áherslu á að allt skóla- og frístundastarf í borginni fari fram í heilnæmu húsnæði og að andleg og líkamleg vellíðan barna, ungmenna og starfsfólks sé ávallt í fyrirrúmi. Vellíðan barns í daglegu lífi leggur grunninn að virkri þátttöku, aukinni færni og árangri í skóla- og frístundastarfi, eins og segir í menntastefnu Reykjavíkur,“ segir í bréfi skólastjóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert