Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum segir að Eyjamenn telji nauðsynlegt að hafa áætlunarflug til Vestmannaeyja. Þá þurfi að tryggja rekstur flugvallarins til sjúkraflugs og vegna almannavarnahlutverks hans.
Bæjarráð Vestmannaeyja fór á fund Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra í fyrradag til að ræða stöðu áætlunarflugs og flugvallar. Flugfélagið Ernir hætti nýlega áætlunarflugi þangað og Isavia sagði starfsmönnunum sínum á flugvellinum upp störfum með það í huga að bjóða þeim lægra starfshlutfall.
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri segir nauðsynlegt að hafa áætlunarflug og rekstur flugvallarins þurfi að tryggja. Telur hún að Isavia geti ekki einhliða dregið úr þjónustu á flugvöllum, án nokkurs samráðs eða samtals við heimafólk og ríkið sem falið hefur félaginu þennan rekstur. Þá liggi ekkert fyrir hvernig Isavia hafi hugsað sér að reka flugvöllinn.
Áætlunarflug til Vestmannaeyja er ekki ríkisstyrkt og hefur ekki verið frá því Landeyjahöfn var opnuð fyrir Vestmannaeyjaferjuna Herjólf. Þá hætti Flugfélag Íslands að fljúga til Eyja og Flugfélagið Ernir hefur annast flugið í allmörg ár.