Aldrei hafa fleiri dvalið í farsóttarhúsunum við Rauðarárstíg heldur en síðustu daga og hefur fjölgað jafnt og þétt í hópnum. Um miðjan dag í gær voru þar 75 manns, langflestir í einangrun með kórónuveikina, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns farsóttarhúsanna. Hann segir að nú dvelji nánast eingöngu Íslendingar í farsóttarhúsunum og fólk innan við miðjan aldur sé áberandi í hópnum.
Sex manns hafa verið þar við störf undanfarið, en í vikunni var auglýst eftir fleira starfsfólki. Gylfi segir að unnið sé á vöktum allan sólarhringinn og vegna álags sé nauðsynlegt að fjölga um 4-5 starfsmenn.
Hann segir að unnið sé að því að útbúa nýja aðstöðu og bæta við einangrunarrýmum, sem full þörf virðist vera á. Hins vegar eigi hann von á því að allstór hópur fari til síns heima um helgina og þá létti á í farsóttarhúsunum við Rauðarárstíg.
Um miðjan dag í gær voru 54 einstaklingar í upprunalega farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg, þar sem áður var Hótel Lind. Í húsinu við hliðina var 21 einstaklingur, en bæði húsin eru í eigu Fosshótela. Það er Rauði krossinn á Íslandi sem hefur umsjón með farsóttarhúsunum á Rauðarárstíg.
Göngudeildin var opnuð síðari hluta marsmánaðar en eftir því sem smituðum fækkaði í vor dró úr starfseminni. Breytingarnar nú felast í auknum fjölda verkefna og þar með auknum fjölda starfsmanna sem sinna verkefnum deildarinnar, bæði í símaþjónustu og í Birkiborg.
Fram kemur á heimasíðu Landspítalans að í gær voru 609 sjúklingar í eftirliti Covid-19 göngudeildarinnar. Þeir voru 572 á fimmtudag, 550 á miðvikudag, 519 á þriðjudag og 497 sjúklingar voru í eftirliti göngudeildarinnar á mánudag. Ragnar Freyr Ingvarsson er yfirlæknir deildarinnar og Sólveig Sverrisdóttir deildarstjóri. aij@mbl.is