Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna utanlandsferða hefur lækkað umtalsvert vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, eða um 66,5%
Þetta kemur fram í svari fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins. Ferðakostnaður fyrstu sex mánuði ársins 2020 er 22,3 milljónir króna samanborið við 66,6 milljónir sömu mánuði 2019. Sparnaður borgarinnar er því 44,3 milljónir.
„Auðveldlega má áætla að sparnaðurinn af COVID-19 verði mörgum tugum milljóna meiri þegar árið verður gert upp vegna þeirrar staðreyndar að landið hefur nánast verið lokað frá í byrjun mars. Til hamingju Reykvíkingar, loksins fann ég sparnað í rekstrinum þótt ástæðurnar séu óskemmtilegar. Með tilkomu tækninnar sem tekin var fyrir alvöru í notkun í COVID eru engin rök fyrir öðru en að draga stórlega úr öllum utanlandsferðum til sparnaðar í rekstri,“ bókaði Vigdís í borgarráði og kallaði eftir sams konar tölum frá B-hluta-fyrirtækjum.