Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vill ekki segja í smáatriðum frá tillögum sínum um hertar aðgerðir sem hann afhenti heilbrigðisráðherra nú í morgun. Hann segir þó ljóst að tilefni sé til hertra aðgerða í ljósi þeirrar stöðu sem nú er.
„Mér finnst eðlilegt að ráðherra fái að líta yfir þessar tillögur fyrst áður en ég fer að ræða þær í smáatriðum við fjölmiðla,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. „Við lærðum mikið af aðgerðunum í vor og notum þá þekkingu til þess að útfæra mögulegar hertar aðgerðir að þessu sinni núna,“ bætir hann við.
Þórólfur segir að mögulega sjáist núna fyrstu teikn þess að kórónuveirufaraldurinn sé í veldisvexti. Hann segir einnig að aukinn þungi á Landspítalanum gefi tilefni til þess að grípa til harðari aðgerða.
„Þetta eru mögulega fyrstu teikn þess að faraldurinn sé í einhvers konar veldisvexti. Hann virðist að minnsta kosti ekki við fyrstu sýn vera í þessum línulega vexti lengur, hvað þá að hann sé eitthvað að fara niður á við. Við sjáum það að færri eru í sóttkví og veiran hefur dreift sér um nánast allt land.
Svo er þunginn á Landspítalanum að aukast eins og við sjáum. Fleiri eru veikir á Covid-göngudeild og nokkrir inniliggjandi á sjúkrahúsi. Þetta ber allt að sama brunni; það er orðið ljóst að þær vægu aðgerðir sem við höfum verið með í gildi virka ekki – ekki heldur að beina þeim tilmælum til fólks að iðka persónubundnar sýkingavarnir,“ segir Þórólfur
Þórólfur segir að mörg smit megi rekja til fjölfarinna staða eða hópa fólks sem hittist reglulega.
„Rakningarteymið fékk tilkynningar seint í gærkvöldi um þessi smit sem greindust í gær þannig að ekki náðist að fullu að rekja öll þau smit sem upp komu. Hins vegar hefur takturinn verið sá að við séum að sjá smit innan vinahópa, gönguhópa og þess háttar.
Einnig höfum við rakið smit til líkamsræktarstöðva og skemmtistaða. Þannig að sá fjöldi smita sem við sjáum í gær getur mögulega að einhverju leyti orsakast af einhvers konar hópsmitum.“
Þórólfur segir það áhyggjuefni að veiran sé að ná inn á hjúkrunarheimili. Í gær var greint frá því að fimm íbúar hjúkrunarheimilisins Eirar væru smitaðir og einnig var tilkynnt smit á Hrafnistu í Garðabæ.
„Þetta er auðvitað áhyggjuefni að veiran sé að komast inn á hjúkrunarheimilin þar sem viðkvæmustu hópar samfélagsins dvelja. Þetta mun líklega auka þungann á Landspítalanum sem ég talaði um áðan.“