Gengur Jakobsveginn á götum Reykjavíkur

Í Viðey. Kládía og Ingvar Pétursson eru mikið á ferðinni.
Í Viðey. Kládía og Ingvar Pétursson eru mikið á ferðinni. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Kládía og Ingvar Pétursson, fjárfestir og ráðgjafi, hafa búið í Reykjavík undanfarin fimm sumur. Í sumar ætluðu þau að ganga Jakobsveginn, um 800 km pílagrímsleið frá Saint-Jean-Pied-de-Port í Frakklandi að dómkirkjunni í Santiago de Compostela á Spáni, en kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir það. Kládía hefur samt haldið sig við markmiðið og er komin langleiðina með að ganga „Jakobsveginn“ í Reykjavík og nágrenni, er búin að ganga tæplega 600 kílómetra. Á meðan hefur Ingvar æft sig í þríþraut.

Kládía segir að þar sem hún búi í Reykjavík hluta úr ári sé mikilvægt að þekkja borgina. Þess vegna hafi hún skipulagt „Jakobsveginn“ eftir borgarskipulaginu og tekið eitt hverfi fyrir í einu, en byrjað á því að ganga frá miðbænum út á Seltjarnarnes og til baka 25. júlí. „Síðan hef ég gengið í þrjá og hálfan til fimm tíma flesta virka daga, allt að 25 kílómetra á dag,“ segir hún. „Markmiðið er að ganga allar götur í Reykjavík og sýna um leið að hægt er að skila jákvæðu verki þrátt fyrir kórónuveirufaraldur og samkomubann.“

Njálurefillinn merkilegur

Þekking Kládíu á borginni hefur aukist til muna samfara göngunni. „Þegar ég varð íslenskur ríkisborgari sagðist ég vilja vera fyrirmynd, góður borgari,“ segir hún og áréttar mikilvægi þess að þekkja umhverfi sitt. Á göngunni hafi hún séð margt, kynnst áður ókunnugri list og menningu og margt hafi komið á óvart. „Ánægjulegt er að sjá að dagheimili og skólar eru á bestu stöðum. Ég vinn fyrir góðgerðarsamtökin Catechesis of the Good Shepherd, sem ég kalla Táknfræði góða hirðisins, í þágu barna í Bandaríkjunum og það gleður mig að sjá börnin sett í forgang.“

Kládía tók þátt í gerð Njálurefilsins á Hvolsvelli og hefur vakið athygli á honum vestra, meðal annars kynnt hann á norræna þjóðminjasafninu í Seattle, The National Nordic Museum in Seattle, með fjáröflun vegna húsnæðis á Hvolsvelli í huga. „Margir ferðamenn koma til Íslands vegna sögunnar og ég sé fyrir mér að Njálurefillinn eigi eftir að draga fólk til landsins næstu þúsund árin.“

Víkingur og járnkarl

Ingvar flutti fimm ára með foreldrum sínum til Bandaríkjanna 1962. Hann var áhrifamaður í bandarísku viðskiptalífi í áratugi, starfaði meðal annars með Bill Gates og Steve Jobs, var framkvæmdastjóri hjá bókunarfyrirtækinu Expedia og síðar hjá Nintendo of America. Fyrir skömmu tók hann sæti í fjárfestingarráði Eyris Venture Management og í stjórn Eyris Sprota II. „Við erum hætt að vinna og ferðumst mikið,“ segir hann, en þau eru jöfnum höndum í Kirkland, sem er skammt frá Seattle, á Havaí og í Reykjavík. „Við segjum oft að við viljum bara búa á eldfjallaeyju.“

Keppni í hálfum járnkarli verður á Havaí í vor og býr Ingvar sig undir hana. Hann segist reyndar ekki fara á fullt fyrr en eftir áramót en haldi sér við fram að því með því að hjóla, hlaupa og synda í samtals um sjö tíma á viku, en tvöfaldi æfingatímann eftir áramót. „Veðrið er alltaf gott á Havaí og mér finnst skemmtileg tilbreyting að hlaupa í misjöfnu veðri, roki og rigningu, eins og er svo oft í Reykjavík,“ segir hann. „Þá finnst mér ég vera víkingur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert