Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að mestu leyti, um hertar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu faraldursins. Ný reglugerð um hertar aðgerðir tekur gildi á mánudaginn 5. október og verður birt á vef stjórnarráðsins á morgun.
Stærstu einstöku breytingarnar verða 20 manna fjöldatakmörkun, sem er þó háð undantekningum, og ferns konar stöðum gert að loka: Skemmtistöðum, krám, spilasölum og líkamsræktarstöðvum.
Verður 100 manna fjöldatakmörkun í tilteknum verslunum auk þess sem sundlaugar verða áfram opnar með þrengri fjöldatakmörkunum, eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt stafsleyfi.
Heilbrigðisráðherra féllst ekki á að 20 manna samkomutakmarkanir yrðu í gildi í útförum og verður þar að hámarki 50 manns heimilt að koma saman. Eins var ekki fallist á tillögu um 20 manna samkomutakmarkanir í framhalds- og háskólum, þar sem 25 manna fjöldatakmarkanir munu gilda og er þar miðað við algenga bekkjarstærð.
Áfram verður eins metra reglan í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð. Í auglýsingu verður gerð sérstök grein fyrir reglum í íþrótta- og menningarstarfsemi en ekki verður gert ráð fyrir áhorfendum. Starfsemi leikhúsa miðast við 100 manna hólf og grímuskyldu.
Heilbrigðisráðherra gerir sérstaka grein fyrir reglum í íþrótta- og menningarstarfsemi í auglýsingu sem birtist á morgun en ljóst er að ekki verður gert ráð fyrir áhorfendum á því sviði en stafsemi leikhúsa miðast þó við 100 manna sóttvarnarhólf og grímuskyldu.
Lagði sóttvarnalæknir til að keppnisíþróttir með snertingu verði leyfðar og hámarksfjölda þátttakenda 50 manns, að uppfylltum skilyrðum sem fela í sér sóttvarnir og kröfu um að áhorfendur verði ekki leyfðir.
Þá lagði sóttvarnalæknir til að snertingar milli leikenda og flytjenda í sviðslistum yrðu leyfðar en við viðburði þar sem allir sitja verði gerð krafa um númeruð sæti og nafn gesta verði skráð. Auk þess verði heimilt að 100 manns komi saman í sóttvarnarhólfi en skylt verði fyrir áhorfendur að bera andlitsgrímur.
Vinnustaðir, verslanir, opinberar byggingar og þjónustuaðilar, að undanskildum matvöruverslunum, verður gert að skipuleggja sína starfsemi í samræmi við 20 manna samkomutakmarkanir. Einnig verða söfn og aðrir opinberir staðir að tryggja að farið sé eftir 20 manna fjöldatakmörkunum og eins metra bili milli ótengdra aðila sé haldið en að öðrum kosti verður skylt að bera andlitsgrímur.
Lagði Þórólfur og til að matvöruverslunum undir 1.000 m2 að stærð verði heimilt að hleypa 100 einstaklingum í sama rými á hverjum tíma. Til viðbótar verði leyft að hleypa einum viðskiptavini inn fyrir hverja 10 m² umfram 1.000 m², þó að hámarki 200 viðskiptavinum í heild.