„Knýjandi að reyna að toga þessa kúrfu niður“

Þórólfur segir að tvær vikur taki að sjá árangur af …
Þórólfur segir að tvær vikur taki að sjá árangur af aðgerðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir lagði til hertar aðgerðir sem eru í grunninn þær sömu og aðgerðirnar sem tóku gildi í mars. Tuttugu manna samkomutakmarkanir eru ströngustu aðgerðirnar sem gripið hefur verið til á landsvísu síðan faraldurinn hófst en ríkisstjórnin tók afstöðu með 20 manna samkomutakmörkunum á ríkisstjórnarfundi í dag.

„Við þurfum að horfa til þess hvernig okkur tókst til síðastliðinn vetur og ég vonast svo sannarlega til að árangurinn verði svipaður og þá,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. Er það mat Þórólfs að tvær vikur taki að sjá árangur af aðgerðum og því hafi hann lagt til að samkomutakmarkanirnar muni gilda næstu tvær til þrjár vikurnar.

Skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verður gert að loka að þessu sinni, ólíkt því sem lagt var til samhliða 20 manna samkomutakmörkununum í fyrstu bylgju en sundlaugar opnar með takmörkunum. Ekki verður hróflað við eins metra reglunni og verða óbreyttar ráðstafanir með grunn- og leikskólastarf.

Álag á Landspítala áhrifaþáttur

Nefnir Þórólfur þrjá þætti sem höfðu áhrif á ákvörðun hans um að leggja til tuttugu manna samkomutakmarkanir.

„Það er í fyrsta lagi þessi vöxtur sem við erum að sjá  að þetta sé að fara í veldisvöxt. Í öðru lagi þetta álag sem er á Landspítalanum núna og það er fyrirsjáanlegt að það muni aukast. Síðan í þriðja lagi erum við að sjá að margir sem greinast í dag eru ekki í sóttkví við greiningu,“ segir Þórólfur. Áhyggjuefni sé að meirihluti greindra undanfarna tvo daga greindist utan sóttkvíar.

„Allir þessir þættir gera það að verkum að það er mjög knýjandi að reyna að toga þessa kúrfu niður eins og hægt er,“ segir Þórólfur. Eins sé áhyggjuefni að tilfelli hafi nýlega greinst inni á hjúkrunarheimilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert