Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu hefur hafið svokallað áfangamat á bóluefni við kórónuveirunni.
Greint er frá þessu á heimasíðu Lyfjastofnunar Íslands. Áfangamat felur í sér að nefndin metur fyrstu haldbæru gögn um bóluefnið, sem byggjast á rannsóknum á rannsóknarstofum. Ekki verður þó hægt að segja til um virkni eða öryggi bóluefnisins á þessu stigi þar sem nefndinni eiga enn eftir að berast miklar upplýsingar, að því er segir í tilkynningunni.
Bóluefnið er þróað af sænsk-breska lyfjafyrirtækinu Astra Zeneca í samstarfi við Oxford-háskóla. Íslensk stjórnvöld hafa þegar gengið til samninga um kaup á bóluefninu fyrir milligöngu Evrópusambandsins.
Stórar klínískar rannsóknir með nokkrum þúsundum þátttakenda standa nú yfir og er niðurstaðna að vænta næstu vikur og mánuði. Þær munu leiða í ljós hve vel bóluefnið ver fólk gegn Covid-19, ásamt því hve öruggt það er.
Í grein Lyfjastofnunar er farið yfir hvernig bóluefnið er talið munu virka til að verjast sýkingu af völdum kórónuveirunnar (SARS-CoV-2).
Þar segir:
Veiran notfærir sér „gaddaprótein“ á yfirborði sínu til að komast inn í frumur líkamans og valda sjúkdómi.
Bóluefnið inniheldur adenóveiru sem hefur verið genabreytt til að framleiða umrædd gaddaprótein. Sú veira getur hins vegar hvorki fjölgað sér né valdið sjúkdómi. Þegar bóluefnið hefur verið gefið fara gen adenóveirunnar inn í frumur líkamans sem hefja framleiðslu á gaddapróteinum.
Ónæmiskerfið lítur á þau sem framandi fyrirbæri og hefur varnir með því að framleiða mótefni og T-frumur gegn veirunni. Sú vörn mun síðar koma að gagni til að verja viðkomandi einstakling gegn sýkingu af völdum SARS-CoV-2-kórónuveirunnar, þar sem ónæmiskerfið kemur til með að þekkja veiruna og ráðast gegn henni; mótefni og T-frumur vinna saman að því að drepa veiruna, meina henni aðgang í frumur og drepa sýktar frumur, og þar með verja einstaklinginn gegn Covid-19.