Lögreglan hafði í nótt afskipti af manni vegna þjófnaðar í verslun í Skeifunni. Maðurinn hafði verið stöðvaður á leið úr versluninni með snyrtivörur að andvirði um tíu þúsund króna sem hann hafði ekki greitt fyrir.
Eftir að hafa fyllt út skýrslu á vettvangi vísaði lögregla manninum úr versluninni en þrátt fyrir ítrekuð tilmæli neitaði hann að yfirgefa hana. Var hann þá handtekinn og færður á lögreglustöð. Þegar þangað var komið reyndu lögreglumenn að ræða frekar við hann en slepptu honum síðar lausum. Þá neitaði maðurinn að yfirgefa lögreglustöðina, en var að lokum fylgt út
Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en alls voru 89 mál skráð í dagbókina í gær og í nótt.
Einn var stöðvaður grunaður um ölvunarakstur á Reykjanesbraut. Þá var bifreið stöðvuð í Breiðholti sem reyndist ótryggð og voru skráningarnúmer klippt af henni.
Laust fyrir miðnætti stöðvaði lögregla bíl í miðborg Reykjavíkur en ökumaður reyndist ekki hafa gilt ökuskírteini. Farþegi í bílnum, sem var erlendur, hafði engin skilríki meðferðis og gat ekki gert grein fyrir sér eða hve lengi hann hafði verið á landinu. Var hann færður á lögreglustöð til að staðfesta hver hann væri.